6. kafli

Hebreskur Yeshua eða grískur Jesús?

Gríska eða hebreska?

Eftir að hafa komist að því að Matteusarguðspjall 23.2-3 var eins á grísku og ensku, var ég eiginlega kominn í þrot með hugmyndir. Rannsóknarsvið mitt beindist helst að Tanach, Dauðahafshandritum og fornum gyðingdómi. Þótt ég hafi lært grísku í háskólanum voru Nýja testamentisfræði í raun ekki mitt sérfræðisvið. Ég spurði því nokkra samstarfsmenn við háskólann hvort þeir gætu gefið mér hugmynd um hvert ég ætti að leita. Einn þeirra sagði mér að sumir fræðimenn væru þeirrar skoðunar að hlutar af fyrstu þremur guðspjöllum Nýja testamentisins væru upprunalega ritaðir á hebresku. Ég spurði hvers vegna þeir teldu svo vera og hann svaraði: „Vegna þess að það er svo mikið af hebreskum hugtökum þar.“

            Ég vissi allt um hebresku hugtökin eftir rannsóknir mínar á Septuagint, fornu grísku þýðingunni á Tanach. Nafntogaðir sérfræðingar í klassískri grísku eiga mjög erfitt með að skilja Septuagint, en hvaða ísraelski námsmaður sem er getur lesið það eftir aðeins tveggja ára nám í grísku. Ástæðan er sú að Septuagint var þýtt af mjög lélegum þýðendum. Fremur en að þýða Tanach yfir á almennilega grísku, þýddu þeir orð á vélrænan hátt og skildu eftir fjölmörg hebresk hugtök. Fyrir þann sem þekkir Tanach á hebresku er gríska þýðingin nokkuð auðveld aflestrar, en fyrir grískusérfræðing sem væntir þess að finna þarna fágaða gríska setningafræði er þetta eins og hrognamál. Fyrr á tímum var það ekkert betra. Eins og einn prófessoranna minna segir: „Þeir sem bjuggu í Aþenu skildu ekki Septuagint.“ Fyrir grískan lesanda til forna var þessi þýðing óskiljanleg. Tanach opnar til dæmis oft frásögn með hebreska orðinu vayehi  „og það var.“ Á hebresku þýðir „og það var“ auðvitað „það átti sér stað, það gerðist.“ En gríski lesandinn sér kai egeneto og segir: „Og það var.“ Og hvað var? Á grísku er þetta bara hrognamál! Oft vissu þýðendurnir ekki einu sinni hvað þeir voru að lesa og bjuggu til fjarstæðukenndar setningar með því að þýða beint, orð fyrir orð.34

34 Sem dæmi: sjá LXX 1. Samúelsbók 3.10 í Septuagint (borið saman við LXX 4. Mósebók 24.1). Áhugaverð dæmi í gríska Matteusarguðpjallinu eru rædd af Grintz bls. 36-39. Eins og einn málfræðingur grísku Nýja testamentisins segir: „Mikil semísk málfarsatriði eru ekki einungis léleg gríska, heldur eru þau einnig líkleg til að valda erfiðleikum í þýðingum...“ (Whittaker, bls. 150)

Þetta er eins og það sem kom fyrir vin minn sem skrifaði ritgerð á ensku í hebreska háskólanum og borgaði svo öðrum fyrir að þýða hana yfir á hebresku. Á einum stað í ritgerðinni vísaði vinur minn í línurit og sagði: „Sjá 1. töflu.“ (á ensku: „See Table 1“ - í ensku máli getur orðið table bæði þýtt „tafla“ og „borð“). Ísraelski þýðandinn hafði aðeins grundvallarþekkingu á ensku og þýddi þetta svona: re´e shulchan ´echad  „sjá eina borðið sem þú borðar við.“ Á hebresku þýðir orðið shulchan borð sem þú borðar við, ekki tafla í skjali, sem er allt annað orð (tavla). Þegar vinur minn las þessa þýðingu vissi hann ekki hvort hann ætti að hlæja eða gráta. Svona þýðingar finnast víða í Septuagint, allt of beinni yfirfærslu þýðanda sem er ekki alveg viss um hvað hann er að þýða. Til að flækja málin enn frekar reyndu fjölmargir grískir eftirritarar, sem kunnu enga hebresku, að „bæta“ það sem var greinilega léleg gríska. Útkoman var þýðing sem oft á köflum hermir eftir hebreskunni orð fyrir orð og er líka oft algjörlega ólík henni.

            Eftir snöggan yfirlestur fyrstu þriggja guðspjallanna á grísku, sá ég að þau innihéldu eitthvað af hebreskum hugtökum. Vissulega ekki að sama marki og Septuagint, en þau voru þó til staðar. Blass og Debrunner, viðurkennd málfræðiheimild gríska Nýja testamentisins, útskýrir ástandið:

Mörg orðatiltæki sem grískur maður hefði aldrei notað hlutu að smeygja sér inn í trúfasta þýðingu úr hebreska upprunanum.35

35 Blass and Debrunner §4 bls. 3. Einn málfræðingur gríska Nýja testamentisins skráir ekki minna en 23 mismunandi flokka hebreskra hugtaka (Zerwick, bls. 163-164).

            Blass og Debrunner segja einnig að þessi hebresku hugtök séu „arameísk.“ Eftir frekari rannsóknir, uppgötvaði ég að það höfðu verið langvarandi deilur meðal Nýja testamentisfræðinga varðandi það hvort ákveðnir hlutar Nýja testamentisins (sérstaklega Matteusarguðspjall, Markúsarguðspjall, Lúkasarguðspjall, Postulasagan og Opinberunarbókin) væru upphaflega ritaðir á arameísku eða hebresku.36

36 Til dæmis heldur Lamsa því fram að allt Nýja testamentið hafi verið ritað á arameísku á meðan Grintz heldur því fram að Matteusarguðspjall hafi verið ritað á hebresku. Sjá Howard 1986a, bls. 223, til að fá yfirsýn yfir báðar hliðar málsins.

Þeir sem styðja arameískt frumrit voru í miklum meirihluta, en þegar ég vann mig smám saman í gegnum grísku fyrstu þriggja guðspjallanna rakst ég á setningar eins og: „og það var“37 sem í fyrstu gat aðeins verið hebreskt hugtak, ekki arameískt. Á aremeísku er þessi setning jafn mikið hrognamál og hún er á grísku.

37 Til dæmis kemur kai egeneto  „og það var“ fram í Matteusarguðspjalli 7.28; Markúsarguðspjalli 1.9; Lúkasarguðspjalli 1.23, o.sfrv.

            Eftir að hafa kafað í Nýja testamentið í nokkrar afar þreytandi vikur, var ég engu nær svarinu en í byrjun. Hvað ef Matteusarguðspjall hefði verið ritað á hebresku eða hefði haft hebreskar heimildir? Sú tilhugsun var vissulega heillandi, en hvernig gæti það samt hjálpað mér að skilja Mattuesarguðspjall 23.2-3? Ég fór aftur til félaga míns í háskólanum og hann játaði fyrir mér að hafa skilið mikilvægasta þáttinn útundan. Hann útskýrði fyrir mér að það væru ekki aðeins nokkrir fræðimenn sem teldu að Matteusarguðspjall hefði upphaflega verið ritað á hebresku, heldur hefði eintak af Matteusarguðspjalli á hebresku varðveist til dagsins í dag.

 

 

 

ð
Áfram í 7. kafla...

ï
Til baka í 5. kafla...

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is