7. kafli

Hebreskur Yeshua eða grískur Jesús?

Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku

Þegar ég heyrði að hebresk útgáfa af Matteusarguðspjalli væri ennþá til, fór ég strax í bókasafn Hebrew háskólans á Mt. Scopus og eftir snögga leit í tölvunni fann ég bók sem heitir the Gospel of Matthew according to a Primitive Hebrew Text (Matteusarguðspjall samkvæmt fornhebreskum texta). Höfundurinn var George Howard, hæfur fræðimaður við amerískan háskóla. Ég settist niður og byrjaði að lesa bókina hans sem innihélt hebreskan texta Matteusarguðspjalls, enska þýðingu á þeim texta, ásamt málvísindalegri og textalegri rannsókn. Áður en ég fór í hebreska textann ákvað ég að lesa í gegnum málvísindalegu og textalegu rannsóknina til að sjá hverju ég stóð frammi fyrir.

            Howard útskýrði að hebreska útgáfan af Matteusarguðspjalli hefði verið varðveitt af spænskum gyðingi 14. aldar, sem hét Shem-Tov Ibn Shaprut. Nafninu hans, Shem-Tov, má ekki rugla saman við Ba´al Shem-Tov, rabbíníska „kraftaverkamanninum“ sem stofnaði Hasidism á 18. öld. Shem-Tov sem varðveitti hebresku útgáfuna af Matteusarguðspjalli var uppi 400 árum áður. Þessi 14. aldar Shem-Tov bjó á spáni á tíma rannsóknarréttarins. Þetta tímabil markaðist af Disputatio eða varnarræðum. Þessar varnarræður voru opinberar kappræður sem þvingaðar voru upp á gyðinga af kaþólskum kúgurum þeirra. Varnarræða gat átt sér stað þegar kaþólskur biskup sendi stormsveitarmenn sína inn á almenningstorg. Rabbíninn var þá þvingaður til að verja gyðinglega trú á staðnum. Ef rabbíninn tapaði, mátti þvinga  gyðingana í hverfinu til að snúast til kaþólskrar trúar en ef hann vann gat hann átt von á því að verða ákærður fyrir að móðga kaþólska trú og verða nauðbeygður til að flýja til að halda lífi.38

38 Góð bók um þetta er Eisensteins´s Ozar Wikuhim (sjá heimildaskrá). Gott dæmi um gyðing sem var nauðbeygður til að flýja eftir að hafi unnið varnarræðu er Nachmandies (1194-1270).

Varnarræðurnar voru í raun alltaf vonlausar kappræður en flestir gyðingar voru sammála um að það væri skárra að verða flóttamaður en þvingaður til kaþólskrar trúar.

            Shem-Tov Ibn Shaprut var uppi á þeim tímum þegar þessar varnarræður voru í hámarki og til að hjálpa gyðingum, tók hann sig til og skrifaði ritdeilufræðigrein sem hrakti kaþólisma. Hann notaði þá aðferð að fara í gegnum Nýja testamentið lið fyrir lið og leita að veikleika sem hægt væri að nota gegn kaþólikkum. Eitt af því sem hann gerði oft var að benda á vers þar sem kaþólikkar brjóta boð Yeshua. 39

39 Í Matteusi 12.1-8 bendir Shem Tov til dæmis á að kaþólikkar hafi afnumið hvíldardaginn, jafnvel þótt Yeshua hafi greinilega haldið honum í heiðri. Sjá einnig Garshowitz, bls. 307-309. 

Í lok ritdeilufræðirits Shem-Tovs Even Bochan (Prófsteinn) bætti hann inn hebreskri útgáfu af Matteusarguðspjalli sem einhvers konar viðauka. Shem-Tov útskýrði að ef gyðingar ættu að standast þessar varnarræður yrðu þeir að byrja að lesa Nýja testamentið. Hebreska útgáfan af Matteusarguðspjalli birtist í lok bókarinnar Even Bochan eftir Shem Tov og er nú yfirleitt kallað Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku.

            Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku var þekkt í margar aldir en það var alltaf gert ráð fyrir að Shem-Tov hefði einfaldlega þýtt sína útgáfu af Matteusarguðspjalli úr grísku eða latnesku yfir á hebresku. Á sjöunda áratuginum gerði George Howard í Mercer háskólanum í Georgiu mjög nákvæma málvísindalega rannsókn þar sem hann sýndi fram á að hlutar Matteusarguðspjalls Shem-Tovs á hebresku gætu ekki auðveldlega verið útskýrðir sem þýðingar úr grísku. Þegar ég kom að málvísindalega rannsóknarhlutanum í bók Howards varð ég mjög spenntur; nú var ég kominn aftur á mitt sérsvið.

            Eitt af því sem Howard sá í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku voru hebreskir orðaleikir.40

40 Fyrir meiri upplýsingar, sjá Howard 1987, bls. 194-201 og Howard 1995, bls. 184-190.

Orðaleikir eru leikir með orð sem byggja á hebreskum rótum sem hljóma líkt og eru notaðar mörgum sinnum með mismunandi merkingum. Þetta er algengt í Tanach og er óaðskiljanlegur hluti af hebreskum frásagnarstíl. Til dæmis er fyrsti maðurinn nefndur Adam vegna þess að hann er kominn af moldu, sem á hebresku er Adamah. Reyndar er til annað hebreskt orð yfir „mold“ sem er ´aretz og gæti hafa verið notað í 1. Mósebók.  En orðið Adamah („mold“) er notað mörgum sinnum í 2. kafla 1. Mósebókar sem orðaleikur við Adam.

            Í öðru dæmi segir Torah okkur að maðurinn og kona hans hafi verið nakin, á hebresku ´arumim (1. Mós. 2.25). Í næsta versi er okkur sagt að höggormurinn hafi verið slægur, á hebresku ´arum (1. Mós. 3.1). Þetta er annar orðaleikur með orðin „nakin“ ´arumim og „slægur“ ´arum. Þessi orðaleikur ber engan boðskap og er einfaldlega hluti af hebreskum frásagnarstíl.

            Annað dæmi má finna í einni af fyrstu sýnum Jeremía:

-11- Orð YHWH kom til mín: Hvað sér þú, Jeremía? Ég svaraði: Ég sé möndlu (shaked) viðargrein. -12- En YHWH sagði við mig: Þú hefir séð rétt, því að ég vaki yfir (shoked) orði mínu til þess að framkvæma það.

            Hér er orðaleikurinn tvinnaður inn í sýn Jeremía. Hann sér möndluviðargrein, á hebresku shaked sem tákn um að YHWH sé nákvæmur, á hebresku shoked. Á öðrum tungumálum er að sjálfsögðu ekkert vit í þessu. Hebreska tengingin er augljós, en aðrar þýðingar fá mann til að velta fyrir sér hvernig möndluviðargrein tengist því að skaparinn vaki yfir orði sínu til þess að framkvæma það.

            Orðaleikir sem þessi eru mjög algengir og má finna á nánast hverri blaðsíðu hebresku ritninganna. Það kom þó á óvart þegar Howard fann hebreska orðaleiki í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku vegna þess að það átti að vera þýðing úr grísku.

            T.d. segir Yeshua í Matteusarguðspjalli 18.9 á hebresku: „Ef auga þitt tælir þig til falls (tachshilcha) ... kasta því frá þér (tashlicheha).“41

41 Allir textar úr Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku hafa verið aðlagaðir úr útgáfum Howards nema annað sé tekið fram. Sjálfur setti ég inn sérhljóðana. 

Þetta felur í sér orðaleik á milli þessara orða sem hafa líkan hljóm, tachshilcha „tælir þig til falls“ og tashlicheha „kasta því frá þér.“ Hvernig komst hebreskur orðaleikur inn í bók sem var þýdd úr grísku?

            Vitanlega er einn orðaleikur varla sönnun fyrir því að bók hafi verið skrifuð á hebresku þar sem þetta gæti verið hrein og bein tilviljun. Það er þegar þetta fer að endurtaka sig sem verður erfitt að útskýra það sem þýðingu úr grísku frumriti. Það virðast þó vera nokkuð margir orðaleikir í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku. Til dæmis: „En fólkið sá (vayir´u) og það óttaðist (vayir´u) mjög mikið“ (Matteusarguðspjall 9.8 á hebresku42).

42 Matteus 9.8 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku. 

Í þessu dæmi eru orð dregin af tveimur mismunandi rótum (r´h „að sjá“ og yr´ „að óttast“) notuð sem orðaleikur. Flóknara dæmi má finna í Matteusi 12.13, 15:

-13- Síðan segir hann við manninn: Réttu fram hönd þína. Hann rétti fram (vayet) höndina... -15- Þegar Yeshua varð þess vís, fór hann þaðan (vayet). Margir fylgdu honum...43

43 Matteus 12.13, 15 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku.

            Hér er orðið (vayet) notað tvisvar með tveimur mismunandi merkingum („hann rétti fram“; „fór hann þaðan“) nálægt hvort öðru. Svipað dæmi má finna í Matteusi 14.35-36:

 -35- ...og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru (hacholim). -36- Þeir báðu (ve-chilu) hann... 44

44 Matteus 14.35-36 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku. 

Í þessu dæmi er rótin chlh notuð með tveimur ólíkum merkingum („sjúkir“ og „báðu“) og er dæmigerður hebreskur orðaleikur.

            Það eru jafnvel dæmi þar sem orðaleikur er fléttaður inn í heilan kafla. Til dæmis í Matteusi 18.23 þar sem Yeshua byrjar að segja dæmisögu sem notar sögnina shalem „að greiða“ fimm sinnum. Í 35. versi lýkur hann síðan sögunni og segir: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af [heilu] shalem hjarta bróður sínum.“ 45

45 Matteus 18.23-35 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku.

Boðskapur dæmisögunnar notar sömu rót shalem með mismunandi merkingu („heilt“ og „greiða“), annan orðaleik.

            Ein helsta sönnun sem þeir vitna í sem trúa því að Matteusarguðspjall hafi upphaflega verið ritað á grísku er orðaleikur í grískunni. Í Matteusi 16.18 segir Yeshua við Símon: „...Þú ert Pétur (Petros), og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína...“ (Matteus 16.18). Þessi orðaleikur er byggður á gríska orðinu petra sem þýðir „klettur“ og nafn Péturs (Petros) er dregið af. 46

46 Svona orðaleikur er líka kallaður „nafnaútskýring.“ 

            Þetta er yfirleitt notað sem afgerandi sönnun þess að Matteusarguðspjall sé upphaflega ritað á grísku þar sem það sé augljóst að gríski orðaleikurinn sé fléttaður inn í innihald kaflans. En á hebresku er öðruvísi orðaleikur sem ekki er að finna í grískunni! Í hebresku útgáfunni af Matteusi 16.18 segir Yeshua: „...Þú ert steinn (´even) og ég mun byggja (´eveneh) bænahús mitt á þér.“ Í hebresku er orðaleikurinn á milli ´even  „steinn“ og sagnarinnar ´eveneh „ég mun byggja.“ 47

 47 Matteus 16.18 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku.

Þessi orðaleikur er mikilvægur vegna þess að hann byggir á svipuðum orðaleik í Sálmi 118.22: „Steinninn (´even) sem smiðirnir (bonim) höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini,“ sem síðar er vitnað í í Matteusi 21.42, 44! 48

48 Sbr. Howard 1996, bls. 185. 

            Hvers vegna eru þessir orðaleikir mikilvægir? Ef Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku var þýðing úr grísku, hvaðan komu þá þessir orðaleikir? Orðaleikirnir eru gerðir til þess að fegra textann. Hvers vegna ætti rabbíni á 14. öld, sem er að skrifa bók til að hrekja kaþólskan kristindóm að hafa fyrir því að fegra hebreska þýðingu á Matteusarguðspjalli?

            Það eru fleiri vísbendingar en orðaleikir sem virðast styðja hebreskan uppruna. Í sumum tilfellum virðist sem Matteusarguðspjallið á grísku sé óskiljanlegt eða að það sé erfitt að lesa það á meðan Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er fullkomlega skiljanlegt. Á grísku segir til dæmis: „Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.“ (Matteus 11.13).49

49 Matteus 11.13 á grísku.

Ef ég væri í sporum Shem-Tovs og hefði þurft að skrifa ádeilu gegn kaþólskum kristindómi hefði ég notað þetta vers sem fyrstu rök mín. Hér segir svart á hvítu í gríska Matteusarguðspjallinu að Tanach hafi ekki talað um Yeshua; Tanach hafi aðeins spáð fram að Jóhannesi skírara en ekki sagt neitt fyrir um þjónustu Yeshua. Þannig er það í gríska Matteusarguðspjallinu! Í hebreskunni segir: „Spámennirnir allir og Torah, sögðu fyrir um þetta varðandi Jóhannes.“ (Matteusarguðspjall á hebresku 11.13).50

50 Matteus 11.13 í Matteusarguðspjalli Shem-Tovs á hebresku:

Þessi hebreski texti er skiljanlegri. Hebreskan segir að í Tanach sé víða vísað til spámanns eins og Jóhannesar skírara (það má benda á lokaspádóm Malakí sem dæmi). Á grísku eru orðin „fram að“ og „varðandi“ töluvert ólík (heos og peri) en á hebresku er munurinn aðeins einn bókstafur (´ad og ´al). 51

51 Hliðstæðan í Lúkasarguðspjalli 16.16 segir líka „fram til Jóhannesar“ en notar annað grískt orð fyrir „fram til“ mechri.

Ef Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku væri bara þýðing úr grísku, þá er gríski textinn sem það byggir á nokkuð ólíkur gríska Matteusarguðspjallinu sem þekkist í dag. En ef Matteusarguðspjall á grísku er þýðing úr hebresku, þá hefur hebreska frumritið sem það byggir á verið mjög svipað Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku. 52

52 Eftirtektarvert er að í fyrstu útgáfu bókar hans, sér Howard hebreskuna og grískuna ekki sem uppsprettu og þýðingu, heldur sem tvær „útgáfur“ af sama verki (Howard 1987, bls. 225). Rökstuðningurinn sem er settur fram hér er minn eigin en berðu það þó saman við Howard 1986a, bls. 225.

 

Matteusarguðspjall á grísku „fram að“

Matteusarguðspjall á hebresku „varðandi“

Samsvarandi orð
á hebresku

 
´ad

 
´al

Samsvarandi orð
á grísku

 
heos

 
peri

            Ef Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er bara þýðing úr grísku, hvers vegna er þá hebreska þýðingin skiljanlegri en gríska frumritið? Það hefði þjónað hagsmunum Shem-Tov að varðveita þennan gríska skilning sem leggur grunninn fyrir sterk rök gegn kaþólisma, sem var, jú, yfirlýst markmið hans. 53 

53 Samanber t.d. athugasemd Shem-Tovs varðandi Matteus 21.5, þar sem hann bendir á ranga tilvitnun í Sakaría 9.9. Shem-Tov segir að Sakaría tali um ösnu, en Matteus skipti henni út fyrir asna! Samanber Howard 1987, bls 179.

             Ef Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er ekki þýðing úr grísku, hvað er það þá? Í niðurlagi bókar sinnar segir Howard:

 Rannsókn á þessum texta leiðir til þeirrar niðurstöðu að eldri grundvöllur Matteusarguðspjalls Shem-Tovs á hebresku sé eldra rit, ekki þýðing. Eldri grundvöllurinn hefur þó gengið í gegnum nokkrar endurskoðanir þannig að texti Shem-Tobs sýnir ekki frumtextann í sinni hreinustu mynd.54

 54 Howard 1987, bls. 223. Í útgáfunni síðan 1987 talar Howard um upphaflega hebreska Matteusarguðspjallið sem fyrri útgáfu sem gæti jafnvel verið eldri en hin gríska (Howard 1987, bls. 223-226). Í bók sinni Hebrew Gospel of Matthew síðan árið 1995 bakkar Howard aðeins með þessa niðurstöðu (Howard 1995, bls. 190) þótt hann haldi því enn fram að „einstakar og fornar framsetningar í þessum texta megi rekja alveg aftur til fyrstu alda kristindómsins“(Howard 1995, bls. 212). Annars staðar í sömu rannsókn, ritar hann: „Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku, eins og það er prentað hér að ofan, varðveitir ekki frumritið í hreinni mynd. Það endurspeglar mengun gyðinglegra skrifara á miðöldum. Töluvert magn frumritsins virðast þó enn vera til staðar, þar á meðal ófágaður stíll, málfræðivillur og arameísk form“ (Howard 1995, bls. 178). Þessi niðurstaða er jafnvel enn meira dregin í efa í Howard 1999, 7. hluta.

            Þetta þýðir að Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er ekki „upphaflega“ Matteusarguðspjallið en það kann að hafa ýmsa upphaflega þætti upprunalega Matteusarguðspjallsins. Til að skilja þetta betur þarf aðeins að lesa í gegnum hebreska textann í Matteusarguðspjalli. Eftir um það bil tíu kafla af hebreskunni er þetta afar augljóst. Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku hefur greinilega smitast af gríska Matteusarguðspjallinu þannig að það inniheldur jafnvel grísk orð sem eru umrituð yfir á hebresku. Það er eins og einhver hafi sest niður með hebreska Matteusarguðspjallið í annarri hendi og það gríska í hinni og „leiðrétt“ hebreska guðspjallið út frá því gríska. Það sem virðist hafa gerst er að í aldanna rás sá fólk sem var vel að sér í gríska textanum þennan hebreska texta Matteusarguðspjalls og hélt að það væru „villur“ í textanum. Þessar villur voru reyndar í grískunni á meðan hebreskan hafði upphaflega hreina textann sem Matteus hafði sjálfur ritað. En þetta fólk sem var vel að sér í gríska Matteusarguðspjallinu áttaði sig ekki á því og „leiðrétti“ því óviljandi hebreskuna með grískuna að leiðarljósi. Þegar Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er nákvæmlega eins og nútíma gríski textinn getum við ekki lært neitt nýtt, það gæti bara verið „leiðrétting“ úr grískunni. En þegar Matteusarguðspjall Shem-Tovs á hebresku er öðruvísi en gríski textinn gæti það innihaldið „frumtexta“ sem hefur tapast í grískunni.55 

55 Sjá einnig tvær rannsóknir sem Shedinger gerði.

 

 

 

 

ð
Áfram í 8. kafla...

ï
Til baka í 6. kafla...

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is