HVAÐ ER HREIN FÆÐA?

Margir virðast misskilja leiðbeiningar YHWH varðandi fæðu
og hvort þær leiðbeiningar eigi við um okkur.

Þess vegna hef ég fengið leyfi hjá Todd Bennet
 til að gera stuttan úrdrátt úr bók hans „Kosher.“

Kosher
(Hrein fæða)

Orðið kosher er hebreska og þýðir einfaldlega „að vera við hæfi, viðeigandi, rétt eða ásættanlegt“ og er yfirleitt notað til að ákvarða hvort eitthvað sé í samræmi við helgisiði. Nú á tímum er þetta orð oftast notað í tengslum við fæðu og kosher þá oft notað til að lýsa því sem má borða samkvæmt fæðuleiðbeiningunum sem finnast í Ritningunni.

Fæðuleiðbeiningarnar sem YHWH gaf eru fyrir hvern þann sem þráir að fylgja og hlýða honum.

Ástæðan fyrir því að flestir trúa því að aðeins „Gyðingar“ þurfi að hafa áhyggjur af fæðuvali er sú að þeir halda að Torah hafi aðeins verið gefið „Gyðingum“ á Sínaífjalli og vegna þess að þeir hafi sérstöðu í augum YHWH eigi stór hluti boða Ritningarinnar aðeins við um þá. Þetta hugarfar er að mörgu leyti gallað. Sú hugmynd að YHWH hafi fyrst gefið „Gyðingum“ eða Ísraelsmönnum reglur varðandi fæðu á Sínaífjalli er ekki samkvæmt ritningunum.

Frá upphafi sköpunar gaf YHWH boð sín til manna og dýra varðandi þá fæðu sem mátti borða. Elóhím sagði við Adam: Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. -30- Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.  1. Mósebók (Beresheet) 1.29-30

Því sjáum við að í upphafi stjórnaði YHWH fæðunni sem menn og dýr neyttu og mataræði mannsins var í beinu samhengi við hlýðni hans við YHWH.

Fyrsta skráða brotið á boðum YHWH var brot á fæðuleiðbeiningum hans, karlinn og konan átu af því sem þeim hafði verið sagt að væri bannað.

Hvergi er skráð að Adam, Hawwah (Eva) eða börn þeirra hafi borðað kjöt eftir brottreksturinn úr aldingarðinum, þótt þau hafi vissulega fært YHWH sláturfórnir. Þetta er mikilvægt vegna þess að þýðingarmikil hlið fæðuleiðbeininga sem finnast í Torah er að skilja muninn á hreinum (tahor) og óhreinum (tamei) dýrum. 

Nói var talinn réttlátur frammi fyrir YHWH á sinni kynslóð og því er óhætt að segja að hann hafi fylgt kosher matarvenjum. Hann tók sjö af hverjum hreinum dýrum og aðeins tvö af hverjum óhreinum dýrum.

Í örkinni neytti Nói ekki kjöts, heldur hefur hann neytt sömu fæðu og dýrin. En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis. 1. Mósebók (Beresheet) 6.21

Þegar flóðinu linnti segir skýrt í ritningunum að hann hafi aðeins fórnað hreinum dýrum frammi fyrir YHWH. Nói reisti þá YHWH altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu. 1. Mósebók (Beresheet) 8.20

Honum var svo sagt: Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar. Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta. 1. Mósebók (Beresheet) 9.3-4

Þetta er í fyrsta sinn sem YHWH leyfði manninum að neyta kjöts og það er nokkuð augljóst að þarna hafi verið átt við hreint kjöt og ekki óhreint.  Það er einkum vegna þess að okkur hefur þegar verið sýnt fram á að Nói hafi þekkt muninn á hreinum og óhreinum dýrum. Auk þess hefði það leitt til útdauða tegundanna ef hann hefði slátrað og etið af óhreinu dýrunum.

Fólk spyr oft: „Hvers vegna borðar þú ekki sumt?“ Svarið er: „Vegna þess að YHWH kveður á um það í ritningunum.“ Leiðbeiningarnar varðandi fæðuna finnast í 11. kafla 3. Mósebókar (Vayiqra).

YHWH talaði við Móse (Mosheh) og Aron (Aharon) og sagði við þá: Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni: Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn; stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;  hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn; og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein.

Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta.

En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð. Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga.

Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð.

Af fuglunum skal yður stugga við þessum, þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn, gleðan og valakynið, allt hrafnakynið, strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið, uglan, súlan og náttuglan, hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn, storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.

Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina. Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur. En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds. En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.

Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn.

Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein.

Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið, skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið. Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds.
3. Mósebók (Vayiqra) 11.1-31

Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta. Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð. Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verið óhreinir af þeim. Því að ég er YHWH, Elóhím yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni. Því að ég er YHWH, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Elóhím. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur.

Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af, svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra. grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.
3. Mósebók (Vayiqra) 11.41-47

Taktu eftir því að áherslan er á það að vera heilagur og frátekinn fyrir YHWH.

YHWH hefur sagt ákveðin dýr óhrein, viðurstyggileg og viðbjóðsleg til matar, rétt eins og hann hefur sagt sumar gjörðir viðurstyggilegar, viðbjóðslegar og óhreinar fyrir fólk. YHWH skilgreinir kynferðislegt siðleysi í 18. kafla 3. Mósebókar (Vayiqra) og segir þær gjörðir andstyggilegar. Ég er viss um að flestir eru sammála því að það sem talið er upp í 18. kafla 3. Mósebókar (Vayiqra) sé ennþá andstyggilegt, jafnvel þótt það sé að finna í Gamla Testamentinu (Tanakh). Sama á við um það að borða það sem er viðurstyggilegt.

Í 5. Mósebók (Devarim) eru reglur YHWH um fæðuval settar svona fram:

Því að þú ert YHWH Elóhím þínum helgaður lýður, og þig hefir YHWH kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru. Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt.

Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé, hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur. Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir, og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta.

Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta, en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein.

Alla hreina fugla megið þér eta, en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn, gleðuna og fálkakynið, allt hrafnakynið, strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið, ugluna, náttugluna og hornugluna, pelíkanann, hrægamminn og súluna, storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna.

Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta.
Öll hrein flugdýr megið þér eta.
5. Mósebók (Devarim) 14.2-20

Þegar eitthvað er endurtekið í ritningunum ættum við að huga sérstaklega að því vegna mikilvægi þess.

YHWH bannar líka neyslu blóðs en margir telja að kjöt bragðist betur þegar það er blóðugt og brjóta því boð YHWH til að kitla bragðlaukana.

Leiðbeiningarnar varðandi fæðu eiga við um hvern sem þráir að tilbiðja og hlýða YHWH.

Margir telja að fundur postulanna í 15. kafla Postulasögunnar hafi gefið þá niðurstöðu að heiðingjar sem tækju trú þyrftu aðeins að halda sér frá því sem er flekkað af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. Það er þó greinilega ekki raunin, vegna þess að þeim var líka ætlað að fara á samkundur hvern hvíldardag til að hlýða á Torah og læra það sem þar stendur. (Postulasagan 15.21)

Flest kristið fólk á bágt með þá tilhugsun að þurfa að hlýða Torah og segir gjarnan að það sé ekki „undir lögmáli“ og eigi þess vegna „frelsi“ til að borða hvað sem er og auk þess hafi Jesús lýst alla fæðu hreina.

Raunar segja ritningarnar að „Jesús hafi lýst alla fæðu hreina“ en við skulum skoða þetta betur eins og það í NIV (New International Version) þýðingunni:

Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: Heyrið mig allir, og skiljið. Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer. Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri! Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna. Og hann segir við þá: Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann? Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna. (Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.) Markúsarguðspjall 7.14-19

Taktu eftir því sem er í sviga í lokin. Svigarnir þýða að þetta sé ekki að finna í upphaflega gríska handritinu, heldur sé þetta viðbót þýðanda. Jesús (Yahushua) var ekki að lýsa alla fæðu hreina þarna og gerði það hvergi annars staðar.

Annað sem er mikilvægt í þessu samhengi er að öll fæða er hrein. Hebreska orðið fyrir fæðu er akal og hebreska orðið fyrir að borða er líka akal. Því er ekki hægt að borða eitthvað nema það sé fæða og það telst aðeins til fæðu sem er hreint. Ef það er ekki hreint (kosher) er það óhreint og ekki fæða, hvort sem trúleysingjar ákveða að borða það eða ekki.

Páll (Shaul) postuli varði miklum tíma í að kenna heiðingjum Torah og hjálpa þeim að greina á milli hefða og sannleika. Þess vegna var hann oft sakaður um að kenna gegn Torah, vegna þess að hann talaði gegn lögmáli manna, ekki lögmáli YHWH.

Í Rómverjabréfinu 14.1-3 segir: Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra. Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu. Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.

Flest kristið fólk trúir því að Shaul hafi verið að kenna það að þú getir borðað hvað sem er ef þú eigir trú og það séu aðeins hinir veikari í trúnni sem eigi erfitt með að borða allt.  Í raun er þetta ekki ritað til að afnema leiðbeiningar varðandi fæðu, heldur varðar þetta hreint kjöt sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Í rómverskri menningu voru sterk tengsl á milli hoffórna og kjötmarkaðs. Kjötið sem var fórnað skurðgoðum var oft selt á kjötmörkuðum og þess vegna var erfitt að greina hvort kjötið sem keypt var hafði verið fórnað í heiðinni trúarathöfn. Þess vegna héldu sumir hinna trúuðu sig frá kjöti, jafnvel þótt það væri hreint, vegna þess að þeir voru ekki vissir um uppruna þess. Þessir voru taldir óstyrkir í trúnni.

Shaul skrifaði þetta bréf til heiðingja sem höfðu tekið trú og hann varði þó nokkrum tíma í 14. kafla Rómverjabréfsins í að tala um kjöt sem hafði verið fórnað í heiðnum hofum. Hann var að segja Rómverjum að hvað sem YHWH hefði lýst hreint í Torah væri hreint og enginn ímyndaður guð eða skurðgoð gæti breytt því.

Saul er engan veginn að segja að það sé í lagi að neyta óhreinnar fæðu. Þegar hann talar um mann sem neytir alls er hann að vísa til þess sem borða bæði kjöt og jurtafæði. Sá einstaklingur er sannfærður í huga sínum um að kjötið sé hreint og Shaul er vitaskuld að tala um kjöt sem er kosher.

 Í 1. Korintubréfi 10.25-31 segir Shaul: Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar. Því að jörðin er YHWHs  og allt, sem á henni er.  Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar. En ef einhver segir við yður: Þetta er fórnarkjöt! þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.  Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars? Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir? Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Elóhím til dýrðar.

Þetta hljómar eins og Shaul sé að segja þér að þú getir farið heim til heiðingja og hámað í þig svínakjöt ef svo vill til að það sé á matseðlinum. Alls ekki! Þetta er spurning um það hvort kjötinu hefur verið fórnað skurðgoði. Ef þú grennslast ekki eftir því, verður það ekkert mál, en ef einhver talar um það hefurðu vakið upp samviskuspurningu. Þetta hefur ekkert með það að gera hvort hinn trúaði geti neytt óhreinna dýra eða ekki.

Annar ritningarstaður sem er notaður til að réttlæta það að borða óhreina fæðu finnst í 1. Tímóteusarbréfi 4.1-5: Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni. Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Elóhím hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann. Allt sem Elóhím hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð. Það helgast af orði Elóhíms og bæn.

Lesandinn kann að túlka þetta sem svo að allar skepnur séu ásættanlegar til fæðu svo framalega sem tekið sé við fæðunni með þakkargjörð og bæn. Með öðrum orðum, ef þú blessir bara svínakjötsmáltíðina, þá verði hún hrein. Með svona textaskýringum væri jafnvel hægt að réttlæta mannát, ef þú bara ferð með borðbæn fyrst.

Þegar Shaul talar um fæðu sem Elóhím hefur skapað er hann að vísa í það sem er hreint (kosher) og telst því alltaf fæða.

Matur helgast aðeins af Orðinu ef hann hefur verið lýstur hreinn í 11. kafla 3. Mósebókar (Vayiqra) eða 14. kafla 5. Mósebókar (Devarim).

Þeir sem fylgja Torah þurfa ekki að biðja YHWH að „blessa matinn“ þar sem maturinn er þegar helgaður af Orðinu og þess vegna þurfa þeir aðeins og blessa YHWH, ekki matinn.

Eitt er víst: Náð YHWH stangast ekki á við Orð hans.

Í Kólossubréfinu 2.16-17 er annar ritningarstaður sem oft er misskilinn af kristnu fólki og það má rekja til slæmrar þýðingar sem breytir merkingunni.

Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.

Hér virðist okkur vera sagt að við eigum ekki að dæma aðra fyrir „kristilegt frelsi“ því hátíðirnar, tunglkomurnar og hvíldardagarnir skipti ekki máli lengur því það sé aðeins skuggamynd af Kristi. Það er ekki rétt þýðing. Bókstafleg þýðing úr grísku er á þessa leið:

Láttu þá engan dæma þig hvað varðar mat eða drykk, hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga, sem er skuggamynd af því sem koma skal, nema líkama Messíasar.

Nú er merkingin algjörlega skýr. Þar sem þetta er allt skuggi þess sem koma skal og er andlegs eðlis skaltu ekki láta nokkurn utan líkama Messíasar dæma þig í þessum málum vegna þess að aðeins líkami Messíasar er í aðstöðu til að skilja og dæma þessa hluti.

Þegar þetta var ritað, lifðu hinir trúuðu í Kólossu mitt í heiðinni sólguðsdýrkun. Þegar þeir byrjuðu að fylgja Torah, aðgreindu þeir sig frá þjóðfélaginu með því að hlýða boðum Ritningarinnar og halda sig frá heiðnum siðum.

Þetta er því hvatning til þeirra um að halda Torah, ekki til að letja þá. Hann segir þeim að hafa ekki áhyggjur af því þótt heiðnir dæmi þá fyrir þetta, vegna þess að þetta sé andleg mynd sem aðeins líkami Messíasar geti skilið.

Að lokum er svo annar hluti úr bréfum Shauls sem er notaður til að réttlæta neyslu óhreins kjöts og hann finnst í 1. Korintubréfi 6.12-14:

Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Elóhím mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Meistarann (Yahushua) og Meistarinn (Yahushua) fyrir líkamann. Elóhím hefur uppvakið Meistarann (Yahushua) og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.

Þarna er matur nefndur til að gefa þá líkingu að eins og maturinn sé fyrir magann, þá sé líkaminn fyrir YHWH. Orðið sem er notað fyrir mat er stundum þýtt sem kjöt og er dregið af gríska orðinu bromata sem þýðir kjöt sem er ásættanlegt til fæðu. Rétt eins og hreint kjöt er fyrir magann, þannig er líkami okkar gerður fyrir YHWH og við þurfum að halda honum hreinum.

Shaul var að ávíta Korintumenn fyrir að reyna að réttlæta kynferðislegt siðleysi, en ekki afboða Torah. Í raun tekur hann sérstaklega fram að maturinn (hreina fæðan) sé fyrir magann og maginn fyrir matinn (hreinu fæðuna).

Sýn Péturs (Kepha) í Postulasögunni er oft notuð til að sýna fram á að lögmál fæðunnar hafi verið afnumið. Við skulum líta á sýnina og síðan túlkunina sem sýnir greinilega fram á allt annað.

Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Kepha upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir. Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn, sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum. Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins. Og honum barst rödd: Slátra nú, Kepha, og et! Kepha sagði: Nei, Meistari, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint. -Aftur barst honum rödd: Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Elóhím hefur lýst hreint! Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins. Postulasagan 10.9-16

Margir taka bara síðustu yfirlýsinguna en skoða ekki heildarmyndina. Þeir nota þetta ritningarvers til að reyna að sanna að YHWH hafi ákveðið að lýsa allt hreint, eins og hann hafi skipt um skoðun varðandi það hvað er fæða og hvað er viðurstyggð.

Það er mikilvægt að skilja að Kornelíus, heiðinn maður, sendi þrjá menn til að leita að Kepha. Allir voru þeir heiðingjar og því taldir óhreinir af Hebreum. Höldum áfram með lesturinn til að skilja sanna merkingu sýnarinnar.

Meðan Kepha var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar (Shimonar). Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti og kölluðu: Er Shimon sá, er nefnist Kepha, gestur hér? Kepha var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn (Ruach) sagði við hann: Menn eru að leita þín. Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá. Kepha gekk þá niður til mannanna og sagði: Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér? Þeir sögðu: Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga  þjóð (Yahudim), fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja. Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Yaffa með honum. Næsta dag komu þeir til Sesareu. Kornelíus bjóst við þeim og hafði boðið til sín frændum og virktavinum. Þegar Kepha kom, fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu. Kepha reisti hann upp og sagði: Statt upp, ég er maður sem þú. Og hann ræddi við hann og gekk inn og fann þar marga menn saman komna. Hann sagði við þá: Þér vitið, að Gyðingi (Yahudite) er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Elóhím hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan. Fyrir því kom ég mótmælalaust, er eftir mér var sent. Nú spyr ég, hvers vegna þér senduð eftir mér. Kornelíus mælti: Í þetta mund fyrir fjórum dögum var ég að biðjast fyrir að nóni í húsi mínu. Þá stóð maður frammi fyrir mér í skínandi klæðum og mælti: Kornelíus, bæn þín er heyrð, og Elóhím hefur minnst ölmusugjörða þinna. Nú skalt þú senda til Yaffa eftir Shimoni, er kallast Kepha. Hann gistir í húsi Shimonar sútara við sjóinn. Því sendi ég jafnskjótt til þín, og vel gjörðir þú að koma. Nú erum vér hér allir fyrir augsýn Elóhíms til að heyra allt, sem Elóhím hefur boðið þér. Þá tók Kepha til máls og sagði: Sannlega skil ég nú, að Elóhím fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.
Postulasagan 10.17-35

Nú ætti sýn Kepha að vera skýr: Hún varðaði þá staðreynd að engan mann ætti að kalla óhreinan og hafði ekkert með mat að gera. Ef ekki hefði verið fyrir þessa sýn, hafði Kepha kannski aldrei áttað sig á því að fagnaðarerindið um Messías var líka fyrir heiðingjana.

Yahushua afnam aldrei Torah eða leiðbeiningarnar um fæðuval, enda sagði hann sjálfur:

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema Torah eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr Torah, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki. Matteusarguðspjall (Mattityahu) 5:17-20

Það að uppfylla Torah þýðir ekki að afnema það eða gera það að engu, heldur að framkvæma það eða fullnægja því. Messías gerði það fullkomlega og leiðir með fordæmi. Hann lifði samkvæmt Torah og fylgjendur hans eiga að feta í fótspor hans og kenna öðrum að hlýða því líka. Þar sem himinn og jörð hafa ekki liðið undir lok er Torah því enn í fullu gildi.

Við erum hólpin fyrir trú en blessuð fyrir hlýðni.

Hvernig má sætta musteri Elóhíms við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Elóhíms, eins og Elóhím hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Elóhím þeirra, og þeir munu vera lýður minn. Þess vegna segir YHWH: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér -og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir YHWH El Shaddaí. 2. Korintubréf  6.16-18

Sem himneskur faðir, gefur hann börnum sínum leiðbeiningar varðandi það sem er best fyrir líkama okkar og er okkur einungis til góðs.

Son minn, gleym eigi kenning minni (Torah), og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli. Orðskviðirnir (Mishle) 3.1-2

Birt með leyfi höfundar
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

 

Upplýsingar um hreint og óhreint kjöt
hreinan og óhreinan fisk


 

Kosher

Bók eftir Todd Bennett um mikilvægi þess að neyta þeirrar fæðu
sem skaparinn hefur ætlað okkur að borða.
Hér er hægt að panta bókina: http://www.shemayisrael.net/books.html
 

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is

 

     
 


Sigrún Einarsdóttir & Ragnar B. Björnsson © 2008
www.torah.is / torah@internet.is