Yom Teruah

 Prestar blása í lúðra

Yom Teruah þýðir dagur blásturs. Þessi dagur markar upphaf hausthátíðanna og er hvíldardagur sem haldinn skal hátíðlegur sem miqra kodesh eða heilög æfing.

3. Mós. 23.24
Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu 

Sjöundi mánuður biblíulega dagatalsins, sem stundum kallast Tishri (tísrí) samsvarar september/október á gregoríska dagatalinu.

Yom Teruah er upphaf tíu daga niðurtalningar til Yom Kippur, friðþægingardagsins, dagsins þegar Ísraelsmenn stóðu frammi fyrir dómi Hins heilaga. Yom Teruah og Yom Kippur eru þekktir sem hinir heilögustu dagar.

Þessar tvær hátíðir eru öðruvísi en aðrar hátíðir að því leyti að þær snúast ekki um uppskerufórnir mannsins, þær snúast ekki um jarðneska uppskeru, heldur eru spádómlegar myndir upp á uppskeru Drottins á því sem hann hefur sjálfur sáð.

Jes. 60.21
Og lýður þinn þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.

Matt. 15.13
Hann svaraði: Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.

Þetta er tími sem notaður er til sjálfskoðunar og iðrunar. Við sættumst við bræður svo að hjarta okkar megi standa rétt frammi fyrir hinum Almáttka á Yom Kippur, friðþægingardeginum.

Einn dag mun allt mannkynið standa frammi fyrir dómara jarðarinnar og svara fyrir gjörðir sínar og í Matt. 5.22-26 talar Yeshua um mikilvægi þess að bera ekki með sér reiði gagnvart bróður. 

Matt. 5.22-26
En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.

Í 1. Jóh. 4.20 segir:
Ef einhver segir: Ég elska Guð, og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. 

Básúnublásturinn á Yom Teruah er kall til vakningar - áminning um að það líði að friðþægingardeginum. Þetta er tími til að iðrast, gera upp sín mál og snúa aftur til YHWH.

Básúnan minnir okkur á að skoða líf okkar og bæta fyrir það sem við höfum gert rangt á liðnum mánuðum og leita fyrirgefningar.

Rosh Hashanah - gyðinglega nýárið

Samkvæmt gyðinglegum hefðum kallast Yom Teruah dagurinn Rosh Hashanah, eða höfuð ársins og tísrí mánuður er sagður marka upphaf ársins. Fyrsta boðorð sem YHWH gaf okkur þó þegar hann leiddi okkur út af Egyptalandi var það að við ættum að heiðra aviv, eða abíb-mánuð sem upphafsmánuðinn.

2. Mós. 12.2
Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. 

2. Mós 13.4
Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði.

Sumir rabbínar segja að gyðingdómurinn haldi upp á Rosh Hashanah til að minnast sköpunar Adams og Evu en aðrir segja að þetta sé aðeins borgaralegt nýár. Tvö ritningarvers eru aðallega notuð þessum áramótum til varnar: 

2. Mós. 23.16
Þú skalt halda hátíð frumskerunnar, frumgróðans af vinnu þinni, af því sem þú sáðir í akurinn. Þú skalt halda uppskeruhátíðina við árslokin, er þú alhirðir afla þinn af akrinum.  

2. Mós. 34.22
Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin.

Hvað er átt við með þessum versum? Hvað þýðir "árslokin?" Skipti hinn Almáttki um skoðun varðandi upphaf ársins sem hann var nýbúinn að boða? Eða getur kannski verið að þessi gyðinglega hefð sé byggð á misskilningi varðandi merkingu þessarar setningar?

Árslokin sem nefnd eru hér að ofan vísa til hátíðadagatals Drottins, sem byggði á sjö mánaða tímabili. Hátíðirnar hófust með páskum (framhjágöngu) og þeim lauk með hausthátíðunum síðasta dag laufskálahátíðarinnar. Þetta jarðyrkjulega dagatal byggði á sjö mánaða hringrás tunglsins. Þess vegna tala hebreskir orðalyklar Ritningarinnar um "hringrás" tímans - sem tíma sáningar og uppskeru.

Ef nýárið er látið byrja á Yom Teruah, er það sett á undan hausthátíð laufskálahátíðarinnar en okkur er boðið að halda uppskeruhátíðina við árslokin þegar aflinn er alhirtur af akrinum (2. Mós. 23.16). Ef nýtt ár hefst 15 dögum áður en þessi átta daga hátíð hefst og 23 dögum áður en henni lýkur, er það hreint og beint andstætt Ritningunni.

Hvers vegna kallar Júda þennan dag þá "Rosh Hashanah?"

Margir trúa því að Júda hafi endurnefnt þennan hátíðisdag og breytt dagatalinu þegar þeir voru herleiddir til Babýon og þar hafi þetta orðið viðtekin hefð, eins og tíðkaðist í Babýlon.

Í hinni heiðnu Babýlon var hefð að halda að hausti árlega hátíð allra guða í musteri Mardúks, aðalguðsins í Babýlon á "degi dómsins" sem Babýloníumenn töldu vera sinn nýársdag.

Nafnið Rosh Hashanah kom fyrst fram í Mishnah (lögmáli munnlegrar geymdar), sem var fyrst sett saman á 2. öld. e.Kr. Hið nútímalega gyðinglega dagatal var skráð af Hillel II á 4. öld e. Kr. Með þeim breytingum tók Yom Teruah hátíðin á sig þessa breytingu sem var smituð af heiðni. Okkar Guð, YHWH Elóhím, sagði höfuð ársins vera „abíb“ og við ættum að heiðra leiðbeiningar hans umfram allt annað.

Notum hausthátíðir hans sem tíma sjálfskoðunar, blessunar og gleði, en sleppum heiðnum áhrifum sem hafa laumað sér inn þar, eins og víða annars staðar. 

Hausthátíðirnar og fullkomnun

Sjöundi dagurinn, sjöundi mánuðurinnn og sjöunda árið eru fráteknir tímar og Yom Teruah er upphaf sjöunda mánaðarins.

Hátíðirnar sem eru í þessum mánuði eru álitnar sérlega helgar vegna þess að talan sjö er tengd fullkomnun.

Í Filippíbréfinu 1.6 segir:
Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.

Hausthátíðirnar vísa til fullkomnunar göngu okkar og fullkomnunar verks föðurins á jörðu. Þær segja fyrir um endurkomu Yeshua til jarðar og tíma þegar faðirinn mun koma niður með hina himnesku borg, Nýju Jerúsalem og dvelja með lýð sínum að eilífu.

Hátíð básúnunnar er sérstaklega táknræn fyrir köllun okkar til að safnast saman og boða öllu húsi Ísrael sannleikann, einingu meðal bræðranna, fyrirbænir og að vera minnst frammi fyrir föðurnum.

Yom Teruah kallast minningardagur með básúnublæstri (3. Mós. 23.24). Þetta á að vera minningardagur þar sem við minnumst og okkar er minnst, þegar við heyrum blásið í tvo silfurlúðra.

Því miður hafa silfurbásúnurnar að miklu leyti misst gildi sitt í þessari hátíð sem hefur breyst í tímans rás. En nú er tími fyrir endurreisn allra hluta (Post. 15.16) og kominn tími til að skilja betur þennan hátíðisdag, en eitt skulum við þó hafa alveg á hreinu:

Áherslan er ekki á það hvað við blásum í á Yom Teruah, heldur að við skiljum hinn spádómlega boðskap sem hátíðin ber með sér. Ritningin sýnir „shofar“ notaðan á marga vegu, að boði YHWH, og við megum ekki gera lítið úr margþættu notkunargildi hans. Fyrst og fremst erum við að leitast eftir því að leiða fram spádómlegar merkingar silfurlúðranna, sem eru nánast fallnar í gleymsku.

Silfurlúðrarnir

Blásið í silfurlúðra

Faðirinn gaf sonum Ísrael ákveðnar leiðbeiningar varðandi hina tvo hömruðu silfurlúðra:

4. Mós. 10.1-10
Drottinn talaði við Móse og sagði: Gjör þér tvo lúðra af silfri. Með drifnu smíði skalt þú gjöra þá. Skalt þú hafa þá til að kalla saman söfnuðinn og þá er herinn tekur sig upp.

Og þegar blásið er í þá báða, skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér fyrir dyrum samfundatjaldsins. En sé eigi blásið nema í annan þeirra, þá skulu foringjarnir koma til þín, höfuðsmenn Ísraels þúsunda. Þegar þér blásið hvellt, skal herinn, sem tjaldar að austanverðu, leggja upp. Og þegar þér blásið hvellt í annan sinn, skal herinn, sem tjaldar að sunnanverðu, leggja upp. Skal blása hvellt, þegar leggja skal upp. En þegar safna á saman söfnuðinum, skulu þér blása, en þó eigi hvellt.

Synir Arons, prestarnir, skulu blása í lúðrana, og skal það vera ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.

Þá er þér farið í stríð í landi yðar móti óvinum yðar, sem á yður herja, skuluð þér blása hvellt í lúðrana, og mun yðar minnst verða af Drottni, Guði yðar, og þér frelsaðir verða frá fjandmönnum yðar.

Á gleðidögum yðar, á löghátíðum yðar og í mánaðarbyrjun skuluð þér og blása í lúðrana við brennifórnir yðar og heillafórnir, og skulu þeir vera yður til minningar frammi fyrir Guði yðar. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Silfurlúðrarnir voru notaðir á ýmsan hátt og í ýmsum tilgangi. Getur verið að hlutverk silfurlúðranna geti hjálpað okkur í endatímaskilningi okkar? Getur Yom Teruah hátíðin ef til vill verið þýðingarmesta hátíðin fyrir trúaða í dag?

Messías okkar fæddist á laufskálahátíðinni, varð fórnarlamb fyrir okkur á páskahátíðinni, reis upp frá dauðum á hátíð frumgróðans og úthellti síðan anda sínum á viknahátíðinni. Margir trúa því að hann muni snúa aftur til að ríkja og stjórna sem dómari allrar jarðar á Yom Kippur (friðþægingardeginum) og að hann muni að eilífu búa (tjalda laufskála) hér á jörðu með lýð sínum Ísrael. En hvað um Yom Teruah? Hvernig uppfyllist sú hátíð? 

Getur verið að hugmyndin um „burthrifningu“ hinna trúuðu við þennan lúðurhljóm verði til þess að við missum sjónar á raunverulegri merkingu þessarar hátíðar? Getur verið að hún sé skuggamynd um endursameinaðan Ísraelslýðs sem tekur að hrópa út og lýsa sannleikanum fyrir alla Ísraelsmenn?  Er þetta tími sem markar upphaf verks sem enn á eftir að vinna? Til að svara þessu skulum við hlusta með andlegum eyrum okkar á þetta ágrip hátíðarinnar:

Faðirinn sagði Ísrael að gera tvo lúðra úr hömruðu silfri sem prestarnir áttu að blása í. Sameinaður lúðurhljómur þeirra átti að kalla saman alla Ísraelsmenn. Þeir voru notaðir til að kalla til brottfarar og kalla til hergöngu - til þess að okkar yrði minnst af Drottni og hann myndi frelsa okkur frá fjandmönnum okkar.

Silfurlúðrarnir tveir í 10. kafla 4. Mósebókar voru notaðir til að kalla alla saman, boða flutning tjaldbúðarinnar, til að undirbúa herför og verða minnst í stríði, til að fagna tunglkomudögum og öllum hátíðum.

Tveir lúðrar - tveir vottar

Yom Teruah hefst á nýju tungli. Á tunglkomudögum og Yom Teruah á að blása í tvo lúðra. Spádómlega tákna lúðrarnir raddir (Op. 1.10)

Opb. 1.10
Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli.

Jes. 58.1
Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!

Í sögunni hafa aðeins verið tveir hópar á jörðu sem hafa báðir vitnað um gæsku „Guðs Abrahams, Ísaks og Jakobs.“ Þessir tveir hópar eru kristnir og Gyðingar. Þeir eru einu tveir hóparnir á jörðinni sem lýsa því yfir að hann sé „þeirra Guð.“ Það er ekki þar með sagt að allir sem segjast tilheyra öðrum hvorum hópunum séu Guði þóknanlegir, en öldum saman hafa þeir vitnað um hann og þannig séð eru þeir „vottarnir hans tveir.“

Í Jesaja 43.10 sagði YHWH að synir Ísraels væru hans vottar. Hann skipti síðan ættkvíslunum tólf í hin tvö hús Efraím/Ísrael og Júda.

Segir Yom Teruah fyrir um þann dag þegar raddir þeirra tveggja tala í fullkominni einingu? Segir hátíðin fyrir um „vottana tvo“ sem munu að lokum þjóna sönnum tilgangi sínum, sem er að staðfesta sannleika föðurins á jörðu, frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar? 

Hamrað þar til við iðrumst

Lúðrarnir tveir fyrir hátíðina eru skuggamynd af því sem koma skyldi. Þá átti að smíða úr einu silfurstykki úr drifinni smíði. Silfur táknar hreinsun okkar og endurlausn. Hamraðir (drifnir) lúðrar eru mynd upp á föðurinn, sem er sá sem hreinsar okkur og mótar í gegnum alls konar eldlega reynslu.

Ef einhvern tíma hefur verið boðskapur sem gæti sundrað heimili, þá er það boðskapurinn um endurreisn Júda og Efraím. Þessi tvö hús hafa verið óvinir á marga vegu og í langan tíma. Hvor um sig telur að þeirra sannleikur sé andstæður hinum, en það er ekki satt. Hvor um sig hefur fengið ákveðinn sannleika sem eru ekki andstæðir, heldur upphefja hvor annan. Okkar deilur rísa vegna rangtúlkana af hálfu beggja húsa.

Það verður erfitt verkefni að lagfæra skarðið sem hefur orðið á milli þeirra, en það getur gerst í krafti Ruach HaKodesh (heilags anda) og þannig segir Abba að það verði gert (Sak. 4.6).

Á meðan við getum, á meðan enn er ljós, skulum við láta sameinaðar raddir okkar óma sem lúðra.

Þegar lúðrar beggja húsa óma, mun allur söfnuðurinn safnast saman og nú er tími fyrir okkur að gera það. Nú er tíminn til að kalla saman bæði Ísraelshús.

Eitt sinn sagði Páll: Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?“ (1. Kor 14.8). Óskilmerkilegt hljóð væri eitthvað sem passar ekki við leiðbeiningarnar sem gefnar eru í 10. kafla 4. Mósebókar. Við þurfum að vera skýr í boðskap okkar. Við viljum ekki gefa frá okkur óskilmerkileg hljóð, heldur það sem er skýrt og greinilegt og eingöngu byggt á hinu eilífa Orði.

Eins og kom fram í upphafi er Yom Teruah hátíðin tími fyrir sjálfsskoðun því á Yom Kippur er komið að því að standa frammi fyrir dómaranum. Yom Teruah er upphaf tíu daga tímabils fram að Yom Kippur, sem við notum við að skoða hvar við stöndum. Bæði hús þurfa að hætta að byggja á röngum grunni og hefja endurbyggingu á traustum sannleika Orðsins.

Hvernig getum við haldið hátíð Yom Teruah í dag?

Þegar fólkið á tímum Esra hélt hátíðina, las Esra upp úr Torah fyrir allan söfnuðinn. Við þurfum að heyra Torah föðurins með andlegum eyrum okkar. Við þurfum að snúa aftur, við þurfum að iðrast og koma að stað endurreisnar.

Neh. 7.73-8.2
Þannig tóku prestarnir og levítarnir og hliðverðirnir og söngvararnir og nokkrir af lýðnum og musterisþjónarnir og allur Ísrael sér bólfestu í borgum sínum. En er sjöundi mánuðurinn kom, voru Ísraelsmenn í borgum sínum. Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael. Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.

Heb. 8.8-10
Sjá, dagar koma, segir Drottinn, er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda, ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá út af Egyptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn. Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.

Látum lúðurhljóminn vekja okkur, blásum í okkar lúðra sem heilagt prestafélag, biðjum fyrir sameiningu Efraím og Júda. Skoðum okkar hjarta, iðrumst og leitum fyrirgefningar, tökum okkur stöðu og verum tilbúin til að standa frammi fyrir dómara okkar, hvenær sem hann kallar.

 

 

Í þessari umfjöllun styðst ég einkum við bókina Israels feasts and their fullness eftir Batya Wootten.

Shalom, Sigrún

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is