Yom Kippur

- friðþægingardagurinn -

Grátmúrinn

3. Mós. 23.27-32
Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn. Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar. Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni. Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar.

Yom Kippur (friðþægingardagurinn) er haldinn hátíðlegur 10. dag sjöunda mánaðar biblíulega tímatalsins. Yom Kippur er talinn einn alvarlegasti dagur ársins og er oft kallaður „dagurinn mikli“ eða „hvíldardagur hvíldardaganna.“

 Yom þýðir dagur á hebresku og Kippur er komið af hebreska orðinu kaphar, sem þýðir að hylja, bæta fyrir, strika út, hreinsa, fyrirgefa, náða, veita sáttargjörð.

 Þessi dagur snýst um algjöra hvíld og fyrirgefningu syndanna. Dagurinn bendir til komandi dóms okkar og hina æðstu fórn Yeshua í okkar stað, sem gerir okkur kleift að geta hvílst.

Yom Kippur í Ísrael áður fyrr

Áður fyrr var æðsti prestur í Ísrael yfirleitt dýrðlega skrýddur en á Yom Kippur var því háttað á annan veg og þá klæddist hann helgu líni. Hér er lýsing Ritningarinnar á þessum degi samkvæmt fyrirskipun YHWH:

3. Mós. 16.3-34
Með þetta skal Aron koma inn í helgidóminn: Með ungneyti í syndafórn og hrút í brennifórn. Hann skal klæðast helgum línkyrtli og hafa línbrækur yfir holdi sínu og gyrða sig línbelti og setja á sig vefjarhött af líni. Þetta eru helg klæði. Og skal hann lauga líkama sinn í vatni og klæðast þeim. 

Hvítt lín

Af söfnuði Ísraelsmanna skal hann taka tvo geithafra í syndafórn og einn hrút í brennifórn. Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt.

Geithafrar

Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins. Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel. Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn. En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.

Uxinn

Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt, og hann skal slátra uxanum, sem honum er ætlaður til syndafórnar. Hann skal taka eldpönnu fulla af eldsglóðum af altarinu frammi fyrir Drottni og lúkur sínar fullar af smámuldu ilmreykelsi og bera inn fyrir fortjaldið.

Reykelsi

Og hann skal láta reykelsið á eldinn frammi fyrir Drottni, svo að reykelsisskýið hylji lokið, sem er yfir sáttmálinu, og hann deyi ekki. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og stökkva því með fingri sínum ofan á lokið framanvert, og fyrir framan lokið skal hann stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu með fingri sínum.

Blóð

 Þessu næst skal hann slátra hafrinum, er ætlaður er lýðnum til syndafórnar, og bera blóð hans inn fyrir fortjaldið og fara með blóðið úr honum á sama hátt, eins og hann fór með blóðið úr uxanum, og stökkva því á lokið og fyrir framan lokið, og friðþægja þannig fyrir helgidóminn, vegna óhreinleika Ísraelsmanna og vegna misgjörða þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað.

 Og eins skal hann fara með samfundatjaldið, sem stendur meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra. Enginn maður má vera inni í samfundatjaldinu, er hann gengur inn til þess að friðþægja í helgidóminum, til þess er hann fer út og hefir friðþægt fyrir sig og hús sitt og fyrir allan Ísraels söfnuð. Hann skal ganga út að altarinu, sem stendur frammi fyrir Drottni, og friðþægja fyrir það. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og nokkuð af blóði hafursins og ríða á horn altarisins allt í kring. Og hann skal stökkva nokkru af blóðinu á það sjö sinnum með fingri sínum og hreinsa það og helga það vegna óhreinleika Ísraelsmanna.

Er hann þannig hefir lokið friðþægingu helgidómsins, samfundatjaldsins og altarisins, skal hann leiða fram lifandi hafurinn. Og Aron skal leggja báðar hendur sínar á höfuð hins lifandi hafurs og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna og allar misgjörðir þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað.

út í eyðimörkina

Og hann skal leggja þær á höfuð hafursins og senda hann út á eyðimörk með manni, sem til þess er ferðbúinn. Og hafurinn skal bera á sér öll afbrot þeirra til óbyggða, og hann skal sleppa hafrinum á eyðimörk.

Og Aron skal ganga inn í samfundatjaldið og færa sig úr línklæðunum, sem hann fór í, er hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir. Og hann skal lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara í klæði sín, ganga síðan út og fórna brennifórn sjálfs sín og brennifórn lýðsins, og friðþægja fyrir sig og fyrir lýðinn. Og mör syndafórnarinnar skal hann brenna á altarinu. Og sá, er fór burt með hafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. En syndafórnaruxann og syndafórnarhafurinn, hverra blóð var borið inn til friðþægingar í helgidóminum, skal færa út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi skinnin af þeim, kjötið og gorið. Og sá, er brennir þetta, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.

Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: Í sjöunda mánuðinum, á tíunda degi mánaðarins skuluð þér fasta og ekkert verk vinna, hvorki innbornir menn né útlendingar, er meðal yðar búa. Því að á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir Drottni. Það skal vera yður algjör hvíldardagur, og þér skuluð fasta. Það er ævarandi lögmál. En friðþæginguna skal gjöra sá prestur, er smyrja á og vígjast skal til þess, að hann þjóni í prestsembætti í stað föður síns, og skal hann klæðast línklæðunum, hinum helgu klæðum. Hann skal friðþægja fyrir hið helgasta, og hann skal friðþægja fyrir samfundatjaldið og altarið, og hann skal friðþægja fyrir prestana og allt fólk safnaðarins. Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: að friðþægja einu sinni á ári fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra. Og hann gjörði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Yom Kippur í Messíasi

Þessi mynd af syndafyrirgefningu einu sinni á ári felur í sér mynd af Messíasi sem æðsta presti okkar. Yeshua kom sem líðandi þjónn til að friðþægja fyrir lýð sinn.

Dagur föstu

Mikil áhersla var lögð á það að Yom Kippur væri hvíldardagur með föstu. Fastan er mynd upp á það að einn daginn mun faðirinn hreinsa heiminn og halda eftir auðmjúkum lýð fyrir sjálfan sig.

Sefanía 3.12-13
Og ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni Drottins. Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga.

Þar sem íbúar Níníve föstuðu og iðruðust þegar Jónas prédikaði yfir þeim, er Jónasarbók gjarnan lesin á þessum tíma, auk Torah.

Margir trúa því að hinn Almáttki opni Lífsins bók á básúnuhátíðinni og loki henni á Yom Kippur og því notar fólk oft kveðjuna: „Megi nafn þitt vera skráð í Lífsins bók,“ á þessum tíma.

Við, sem höfum verið verði keypt af Yeshua, Messíasi okkar, getum fagnað yfir því að nafn okkar er skráð í Lífsins bók lambsins (Op. 21.27).

Þó er gott fyrir okkur að taka þennan tíma frá til að fasta og reyna að hvíla fullkomlega í hvíld Messíasar.

Heb. 4.9-11
Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

Iðrun og afturhvarf

Sameiginlegt þema Yom Teruah (básúnudagsins) og Yom Kippur (friðþægingardagsins) er iðrun og afturhvarf. 

Áður en hægt er að snúa aftur til föðurins verður að iðrast, og kall til iðrunar er hefðbundið þema Yom Teruah. Á svipaðan hátt er afturhvarf undirliggjandi þema Yom Kippur og þannig má sjá þessar tvær hátíðir sem eina heild.

Þessar tvær hátíðir eru tengdar en það má segja að þær byggi á tveimur mismunandi röddum sem hafa mismunandi spádómlegar merkingar.

Silfurlúðrar Yom Teruah voru smíðaðir af mönnum og draga upp mynd af sameinuðum röddum beggja húsa Ísraels. Þeir eru mynd upp á mann sem kallar til manns og manns sem kallar til hins Almáttka

Aftur á móti er (shofar) hrútshornið gert af hinum Almáttka. Hljómur hrútshornsins dregur upp mynd af hinum Almáttka sem talar út boðorð sín og því er Yom Kippur mynd upp á hinmeska rödd Guðs sem talar út boð til manna.

Yom Kippur og fagnaðarár 

Fagnaðarár hefjast alltaf á Yom Kippur: 

3. Mós. 25.8-13
Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar. Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum. Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur. Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns. 

Það er álit margra að Messías okkar, Yeshua, kunni að snúa aftur á á Yom Kippur og að endurkoma hans muni hefja uppfyllingu fagnaðarársins og að þá muni blásið í hrútshorn (shofar). 

Við vitum að Yom Kippur er alvarlegur dagur og endurkoma Messíasar mun sannarlega vera alvarlegur atburður, því það verður dagur dóms.

Jóh. 5.26-29
Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.

Shofar

Fagnaðarárið hefst á Yom Kippur og hljómur shofar-hornsins kallar inn upphaf þess. Shofarinn táknaði nærveru hins Almáttka áður fyrr og blástur hornsins mun líklega vera notaður til að tákna endurkomu nærveru sonar hans, Yeshua.

Þegar Yeshua las úr Jesaja í samkundunni lýsti hann því yfir að hann væri kominn til að kunngjöra náðarár Drottins og sagði:

Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti hann aftur bókinni... Lúk. 4.18-20

En Yeshua hætti að lesa áður en hann kom að lokum lýsingar Jesaja á Messíasi. Hann vissi að hann myndi koma aftur til að uppfylla það sem eftir var af spádóminum. Jesaja sagði að sá dagur myndi koma að Messías myndi:

...boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda, til að láta hinum hrelldu í Síon í té, gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar...

... sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors.

...Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut. (Jes. 61.2-7)

Á komandi eilífðar-fagnaðarári munum við snúa aftur til fyrirheitna landsins okkar. Þá munum við þekkja frelsi og endurreisn í fyllstu merkingu. Við munum þekkja algjöra lausn og eilífa gleði, en fram að þeim tíma þurfum við að láta raddir okkar óma sem básúnur og lýsa yfir eilífum sannleika hans. Við þurfum að vera trúföst allt til enda (Jes. 51.11; Matt. 24.13).

Hvenær sem Messías kemur aftur, hvort sem það verður á Yom Kippur eða öðrum degi, er mikilvægast af öllu að við séum verðug og tilbúin til að ganga inn í eilífan fögnuð hans. 

Kom þú, Drottinn Yeshua!

 

Í þessari umfjöllun styðst ég einkum við bókina
Israels feasts and their fullness eftir Batya Wootten.

Shalom, Sigrún

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is