Hvers vegna ætti kristið fólk
að lesa Torah?

Stækkunargler

Kannski hefur yfirskriftin vakið forvitni þína, en þú veist ekki alveg hvers vegna. Er Torah (1.-5. Mósebók) ekki bara eitthvað gyðinglegt rit?

Ef til vill hefurðu áhyggjur af því að einhverjir vina þinna telji undarlegt ef þú ferð að kafa í einhver gyðingleg rit.

Við skulum líta á fjórar ástæður þess hvernig lestur Torah getur verið mikilvægur fyrir fólk sem trúir því að Biblían sé Orð Guðs.

1. Til þess að skilja alla Biblíuna betur

Orðið "torah" er dregið af orðinu "yarah" sem var hugtak um bogfimi á fornhebresku og þýddi að skjóta ör beint í mark. Það þýddi líka það að kenna eða veita leiðbeiningar. Í sannarlega biblíulegum skilningi vísar torah því í leiðbeiningar frá kærleiksríkum Guði um það hvernig við lifum lífi sem hittir í mark. Fyrstu fimm bækur Biblíunnar sem stundum eru kallaðar Mósebækurnar, eru líka kallaðar Torah, sem er mjög viðeigandi hugtak, þar sem bækurnar innihalda upphaflegar leiðbeiningar Guðs til lýðs síns varðandi líf í samhljómi við vilja hans.

Torah er þó oftast þýtt sem lögmál á Íslensku (law á ensku). Í New American Standard Biblíunni er enska orðið law (lögmál) notað 505 sinnum: 283 sinnum í Eldra testamentinu og 222 sinnum í Nýrra testamentinu. Til samanburðar er orðið love (kærleikur) notað 572 sinnum: 281 sinni í Eldra testamentinu og 291 sinni í Nýrra testamentinu. Þar sem law (lögmál) og love (kærleikur) fá næstum jafn stóran skerf í ritningunum, er ef til vill jafn mikilvægt að við sannarlega skiljum sjónarmið Guðs á lögmáli hans eins og kærleika hans.

Í versum eins og Sálmi 119.1 þar sem við sjáum orðið lögmál ættum við ef til vill að hafa annað hugarfar en tíðkast hefur í gegnum árin. Lítum t.d. á þessi tvö vers:

„Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.“ (Sálm. 119.1)

„Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, jafnvel bæn hans er andstyggð.“ (Orðskv. 28.9)

Í báðum þessum ritningarversum, eins og mörgum öðrum í Biblíunni, er orðið lögmál Torah á hebresku og vísar til allrar kennslu Mósebókanna, fremur en ákveðinna flokka fyrirskipana eða boðorða.

Auk þess er gríska orðið fyrir lögmál nomos notað 158 sinnum í Nýrra testamentinu. Gæti verið að einhverjar þessar tilvísana eigi líka við um víðara hugtak Torah, þá alla Biblíuna? Í Matteusarguðspjalli 5.17 er til dæmis haft eftir Yeshua (Jesú): „Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.“ Á tímum Yeshua, og enn þann dag í gyðingdómi, eru hebresku ritningarnar hugsaðar á þrískiptan hátt:

Lögmálið - Mósebækurnar, kallaðar Torah

Spámennirnir - spádómlegu bækurnar,
   eins og Daníelsbók, kallaðar
Nevaim

Ritin - safn ljóða, eins og Sálmarnir,
   kallaðar
Ketuvim

Þegar Yeshua lýsir því yfir að hann sé ekki kominn til að afnema lögmálið eða spámennina er hann að nota hebreskt hugtak til að segja að hann sé ekki kominn til að afnema eða andmæla nokkru af hebresku ritningunum. Hann kom til að túlka þær rétt. Því er fyrsta ástæða okkar til að lesa Torah einfaldlega til þess að skilja alla Biblíuna betur, bæði Eldra og Nýrra testamentið.

2. Til þess að skilja Yeshua og lærisveina hans betur

Önnur ástæða til að lesa Torah er til þess að skilja Yeshua og lærisveina hans betur. Ritningin sem þeir rannsökuðu og vísuðu í var það sem við köllum Gamla testamentið í dag. Þeir vísuðu í hana sem Tanakh, sem er sett saman úr orðunum Torah (lögmálið), Nevaim (spámennirnir) og Khetuvim (Ritverkin). Í bæði fornum og nútímalegum gyðingdómi, er Torah álitinn mikilvægasti og mest lesni hluti Tanakh. Þegar djöfullinn freistaði Yeshua í eyðimörkinni (4.kafli Lúkasarguðspjalls) kom hvert einasta svar Yeshua úr 5. Mósebók Torah.

„Og Jesús svaraði honum: Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði. (Lúk. 4.4)

„Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.“ (5. Mós. 8.3)

„Jesús svaraði honum: Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum. (Lúk. 4.8)

„Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja.“ (5. Mós. 6.13)

„Jesús svaraði honum: Sagt hefur verið: Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns. (Lúk. 4.12)

„Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.“ (5. Mós.“ 6.16)

Á tímum Yeshua samþykktu saddúkearnir aðeins Torah sem Ritningu og það aðskildi þá frá faríseunum sem samþykktu allt Tanakh. Gyðingadrengjum á tímum Yeshua var fyrst kennd 3. Mósebók og síðan 5. Mósebók. Þeir lærðu gjarnan allt utanbókar, eða að minnsta kosti stóra hluta, beggja þessara bóka.

Það að rannsaka Biblíuna sem Yeshua rannsakaði, lagði á minnið og vitnaði í, hjálpar okkur að þekkja hann á dýpri hátt. Á sama hátt og við rannsökum Eldra testamentið til að skilja líf og orð Yeshua, er það líka mikilvægt til þess að skilja Nýrra testamentið. Páll postuli lýsti sjálfum sér svona: „Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg (Jerúsalem). Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.“ (Post. 22.3)

Til þess að skilja rit Páls, þurfum við að skilja menntun hans, hinar mörgu tilvísanir í Eldra testamentið og hina gyðinglegu þekkingu sem kemur fram í ritum hans. Páll er oft álitinn tala gegn lögmálinu, en lítum á þessar tilvísanir úr Rómverjabréfinu:

„Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.“ (Róm 3.31)

„Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: Þú skalt ekki girnast.“ (Róm 7.7)

„En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.“ (Róm 7.16)

Getum við virkilega skilið bréf Páls ef við skiljum ekki samhengið og hvað hann á við þegar hann talar um lögmálið?

3. Til þess að hjálpa okkur að iðka það sem við boðum

Þriðja ástæðan er einfaldlega til þess að iðka það sem við boðum - að við trúum allri Biblíunni, báðum testamentunum.

Flestar kristilegar bækur sem eru ritaðar til að verja trúna, eyða miklum tíma í að ræða sköpunarfrásögnina og færa rök fyrir henni en samt eru fyrstu 39 bækur Biblíunnar lítið notaðar. Ef við segjum að Biblían sé Orð Guðs frá upphafi til enda skulum við taka okkur tíma til að kynna okkur upphafið. Það verður þér ekki aðeins til blessunar, heldur muntu byrja að lifa lífinu á dýpri hátt út frá valdi Ritningarinnar. Þú munt auðga skilning þinn á Yeshua og fyrstu fylgjendum hans, og þú munt drekka af brunni opinberaðs sannleika Guðs.

4. Til þess að opna umræður við gyðinglega vini okkar

Kirkjan stendur í mikilli þakkarskuld við gyðingdóminn. Margt af því sem við iðkum, allt frá sálmasöng til opinbers lesturs Biblíunnar, frá skírn til þess að kenna börnum okkar um Guð, kemur beint úr gyðingdómnum. Auk þess er Biblían okkar gyðingleg, andleg arfleifð okkar er gyðingleg, Yeshua, Messías okkar, lærisveinarnir og postularnir einnig.

Er ekki tímabært að við byrjum að rannsaka rætur trúar okkar og læra að meta þann grundvöll sem þar er?

 

Úrdráttur og endursögn úr fréttabréfi Bridges for Peace, júlí 2006

Mynd með grein er úr sama fréttabréfi

Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is