Laufskálahátíðin

Sukkot

Sukkot

Eftir friðþægingardaginn, þennan alvarlega og háheilaga dag, tekur við undirbúningur fyrir næstu hátíð sem er mikil gleðihátíð og fólk fer að reisa sér laufskála í görðum, á svölum og hvar sem því verður komið við vegna þess að á þessum tíma eiga menn að dvelja í tímabundnum bústað, svokölluðum laufskála. Gjarnan er látið sjást upp í himininn í gegnum greinar laufskálans til þess að minna okkur á hinn almáttuga skapara sem annast okkur. Fjölskyldur reyna að borða saman og dvelja eins mikið og hægt er í laufskálanum á hátíðinni og þetta er skemmtilegur gleðitími í faðmi fjölskyldu og vina.

Laufskálagerð

Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda YHWH laufskálahátíð sjö daga. 3. Mós 23.34

Laufskálahátíðin er sjöunda hátíðin, er í sjöunda biblíulega mánuðinum og stendur í sjö daga. Sjö er tala fullkomnunar og fullnustu. Því er laufskálahátíðin talin vera hátíð allra hátíða og hún er mikil gleðihátíð.

Laufskálahátíðina áttu Ísraelsmenn að halda til þess að minnast þess hvernig YHWH sá fyrir þeim í eyðimörkinni í þau 40 ár sem þeir voru þar eftir brottförina úr Egyptalandi. Þar dvöldust þeir í tímabundnum bústöðum með tjaldbúð sem þeir fluttu með sér hvert sem þeir fóru og hinn Almáttki var þeirra eina sanna vernd og forsjá.

Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir YHWH Elóhím yðar, í sjö daga. Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð YHWH sjö daga á ári. Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum, svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er YHWH, Elóhím yðar. 3. Mós. 23.40-43

Það er einnig gott fyrir okkur að minnast þess hvernig við byrjuðum og hvert Drottinn hefur leitt okkur og renna huganum að því hvernig hann hefur séð fyrir okkur eftir að við hófum gönguna með honum. Líkami okkar er tímabundin tjaldbúð hér á jörðu.

Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni. Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna. Í sjö daga skalt þú halda YHWH Elóhím þínum hátíð á þeim stað, sem YHWH velur, því að YHWH Elóhím þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega. 5. Mós. 16.13-15

Ávextir

Laufskálahátiðin er líka uppskeruhátíð síðari uppskerunnar, þegar öllu hefur verið safnað saman í hús. Þannig er það líka mynd upp á það þegar YHWH hefur safnað sínu fólki saman á efsta degi og skilið hveitið frá hisminu.

Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Opinb. 21.1-3

Í eilífðinni fáum við að dvelja hjá honum, þ.e. þeir sem hafa valið að þiggja frelsisgjöfina sem hann færði okkur í syni sínum sem dó fyrir okkar syndir, sem hið fullkomna fórnarlamb og uppfyllti vorhátíðirnar með dauða sínum, greftrun, upprisu og úthellingu heilags anda.

Lifandi vatn

Á tímum seinna musterisins komst sú hefð á að síðasta dag hátíðarinnar fóru útvaldir prestar og sóttu vatn í Sílóamlaug og báru það í ákveðnum ílátum upp í musterið og settu á altarið með þökk fyrir uppskeruna og bæn fyrir góðu haustregni. Þá var gjarnan vísað í 12. kafla Jesaja.

Sjá, Guð er mitt hjálpræði (Yeshua), ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði (Yeshua). Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins (Yeshua). Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.
Jesaja 12.2-6

Á laufskálahátíð kallaði Yeshua sjálfur til fólksins og sagði: ...Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig, frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir. Jóh. 7.37-38

Við samversku konuna sagði Yeshua: ...en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs. Jóh. 4.14

Hann bjó með oss

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Jóh. 1.1

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh. 1.14 

Yeshua kom og bjó meðal mannanna eða með oss, eins og segir í 14. versi. Orðið bjó er skene á grísku og dregið af hebresku orði sem þýðir tjaldbúð. Yeshua HaMashiach (Jesús Kristur), Orðið, gerði sér tjaldbúð meðal mannanna.

Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss. Matt. 1.23

Hið lifandi Orð Guðs, Yeshua, varð hold og bjó með okkur eins og Torah og spámennirnir höfðu sagt fyrir um og margt bendir til þess að fæðing hans hafi átt sér stað á laufskálahátíð.

Laufskálahátíðin er þekkt sem „gleðitíð okkar“ og þegar engillinn boðaði fjárhirðunum fæðingu Messíasar, sagði hann: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Lúk. 2.10

Hefð var fyrir ákveðinni bæn fyrsta dag laufskálahátíðarinnar: „Dýrð sé Guði á himnum, friður á jörðu og góðvilji gagnvart jörðinni.“ Þessi bæn er mjög svipuð því sem Lúkas segir frá í yfirlýsingu englanna: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk. 2.14

Ísraelsmenn áttu að fara til Jerúsalem á laufskálahátíðinni. Þangað streymdu þeir því á þessum tíma og allir gististaðir voru þétt setnir. Þar sem Betlehem var svo nálægt Jerúsalem gat hún líka hýst aðkomufólkið. Í Lúkasarguðspjalli segir: Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. Lúk. 2.7

Í guðspjöllunum segir frá því að hirðar hafi verið að gæta hjarðarinnar í haga. Yfirleitt hafa hirðar í Betlehem ekki sauðahjarðir úti í vetrarkuldanum. Hvenær sem mögulegt var, var sauðféðnu skýlt í hellum yfir vetrarmánuðina en samkvæmt gyðinglegri hefð var sauðfénu sem átti að fórna á hátíðinni haldið á opnum haga í sjö daga og síðan fórnað áttunda daginn. Á tímum laufskálahátíðarinnar átti að gæta sauðanna alla nóttina. Á öðrum tímum fóru hirðarnir með féð í skjól á nóttunni.

Fjárhirðar

Jósef og María fóru til Betlehem vegna manntals og sögulegar heimildir benda til þess að yfirleitt hafi Rómverjar framkvæmt manntöl á tímabilinu ágúst-október. 

Lúkas segir einnig frá öldruðum presti, Sakaríasi, af deild Abía, sem engillinn Gabríel sagði að myndi eignast son og eftir þjónustu hans í musterinu varð Elísabet, kona hans, þunguð.

Sakaría sinnti þjónustu samkvæmt ákveðinni reglu sem sagt er frá í 24. kafla 1. Kroníkubókar og út frá þessu álykta sumir að Sakaría hafi þjónað í musterinu snemma í júní og að sonur hans, Jóhannes skírari hafi því fæðst í kringum hátíð framhjágöngunnar (páska). Sjá 1. Kro. 24.10 og Lúk. 1.5-25.

Á sjötta mánuði meðgöngu Elísabetar birtist engillinn Gabríel ungri mey að nafni Miriam og sagði henni að hún yrði móðir Messíasar þegar heilagur andi hefði yfirskyggt hana. Samkvæmt útreikningunum hér að ofan sjáum við að sú heimsókn hefur líklega átt sér stað í kringum desember, og níu mánuðum síðar, á tíma laufskálahátíðarinnar hefur Miriam alið Messías, Yeshua, Orðið sem bjó með oss.

Ef við ættum einhvern tíma að fagna fæðingu frelsarans, þá væri það því helst á þessum tíma!

Gleðilega laufskálahátíð!
Chag Sukkot Sameach!

 

Í þessari umfjöllun stikla ég aðeins á stóru og margt fleira mætti segja um þessa gleðilegu og spádómlegu hátíð, en ég læt þetta duga að sinni.

Ég hef stuðst að einhverju leyti við bókina Israels feasts and their fullness eftir Batya Wootten.

Shalom, Sigrún

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is