Bréf frá íslenskri móður í Ísrael

Össur semur við öfga- og hryðjuverkasamtök í okkar nafni

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2011


Ólöf Einarsdóttir

Mörg opinber skjöl sýna það ótvírætt að meginregla íslenskra stjórnvald á fjórða áratug síðustu aldar var að hindra aðflutning útlendinga til Íslands og átti þetta sérstaklega við um gyðinga sem reyndu að flýja nasisma Þýskalands. Hundruðum þeirra var neitað um landvistarleyfi á Íslandi á þeim forsendum að þeir tækju frá okkur vinnu og myndu aukinheldur spilla menningu okkar og kynstofni. Íslendingar gengu harðar fram gegn gyðingum en nágrannaþjóðir okkar á þessum árum. Einhverjir gyðingar sem komnir voru til landsins voru sendir til baka í gasofna Hitlers aðrir þvældust um Evrópu í leit að hæli. Er nú sagan að endurtaka sig. Ætlum við Íslendingar með Össur í fararbroddi að stuðla að því að Ísrael og þeim gyðingum sem byggja það land verði gereytt rétt eins og þeim 6 milljónum gyðinga sem var gereytt í Evrópu fyrir tæpum 70 árum?

Eyðileggur Össur það, sem Thor Thors sendiherra gerði hjá SÞ 1948 við stofnun Ísraelsríkis? Það að Össur Skarphéðinsson fyrir hönd íslensku þjóðarinnar hafi nú nýverið farið á fund Hamas og Fatah og lýst yfir stuðningi þeim til handa er grafalvarlegt mál. Kröfur Palestínuaraba undir stjórn Hamas og Fatah um að Ísraelar færi landamæri sín aftur til ársins 1967, fyrir sex daga stríðið, geta Ísraelar með engu móti samþykkt, það þýddi sjálfsmorð fyrir ísraelsku þjóðina.

Ég er íslensk móðir í Ísrael. Ég er gift ísraelskum gyðingi og foreldrar hans voru á meðal þeirra 900.000 gyðinga sem flúðu arabalöndin hérna allt um kring um og eftir seinni heimstyrjöldina. Við búum í innan við 2 km fjarlægð frá Gazaströndinni og í gær (13. júlí) féllu fjórar eldflaugar frá Gazaströndinni á okkur hérna í Suður-Ísrael.
 
Eldflaugunum rignir yfir okkur

Í fyrradag (12. júlí) skutu þeir öðrum 4 eldflaugum hingað yfir. Dóttir mín var ein heima, úti í garði að vökva blómin þegar viðvörunarbjöllurnar fóru í gang. Hún hljóp inn í loftvarnarbyrgi og taldi upp að 10, en við höfum 15 sekúndur í besta falli til að bregðast við þessum eldflaugaárásum. Oft ná viðvörunarbjöllurnar ekki að nema hættuna vegna nálægðarinnar. Við búum við rússneska rúllettu. Þegar mest var hérna í vetur skutu Palestínuarabar 120 eldflaugum eina helgina. Kappleikjum var frestað í Beersheva, höfuðborgin í suðri þar sem ca. 300.000 manns búa. Grunnskólar í borgunum Beersheva, Askhelon, Sedrot og svo náttúrulega grunnskólarnir hér allt í kring voru lokaðir í 3 daga vegna þessa. Í janúarmánuði síðastliðnum frömdu öfgamenn í röðum palestínuaraba 83 hryðjuverkaárásir gegn Ísrael, skutu 17 stórum eldflaugum á Ísrael og 26 litlum eldflaugum. Febrúarmánuður var heldur »friðsamlegri« með 61 hryðjuverkaáarás, 6 stærri eldflaugum og 19 minni! Þessi grein er skrifuð 14. júlí og á þessum síðustu tveimur vikum höfum við fengið að finna fyrir 11 eldflaugum Gazverja.

Er Össur utanríkisráðherra blindur og heyrnarlaus?

Skyldu þessar árásir hafa farið framhjá Össuri þegar hann dvaldi hérna á dögunum? Þeir félagar hans í Hamas-samtökunum hafa ef til vill náð að telja honum trú um að það væru Ísraelsmenn sjálfir sem væru að skjóta þessum óþverra hingað yfir. Frá því í byrjun þessa árs hafa Palestínumenn skotið tæplega 400 eldflaugum yfir á Ísrael. Það gera að meðaltali 2 eldflaugar á dag. Eldflaugaárásirnar hérna eru nærri því daglegur viðburður sem alþjóðasamfélagið hundsar.

Ég bý á samyrkjubúi sem er afgirt með gaddavírsgirðingu (eins og reyndar öll samyrkjubú í Ísrael) og hér við hliðið er alltaf 1 hermaður á vakt og svo 2-4 á nóttunni. Í Ísrael mega menn ekki slaka á í neinu hvað varðar öryggisgæslu og svo kemur Össur Skarphéðinsson í bílalest með Fatah (og líklega Hamas) gaurum og heldur að hann fái einhverja sérmeðferð!

Hvenær munu Ísraelar fá réttláta umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum? Í frétt sem ég las á einum íslenska fréttamiðlinum eftir för Össurar hingað út var greint frá því að Ísraelar neituðu að setjast að samningaborðinu. Engar skýringar voru gefnar og ekkert minnst á það að báðir deiluaðilar hafa verið að slíta viðræðunum í þessu ferli á víxl. Ástæðurnar fyrir því að Ísraelar hafa slitið samningaviðræðum í gegnum tíðina eru m.a. stöðugar eldflaugaárásir palestínuaraba frá Gazaströndinni og það á »friðartímum« og það að Hamas og Fatah vilja ekki viðurkenna sjálfstæða ríkið Ísrael. Hvernig er hægt að ræða af viti við menn sem viðurkenna ekki tilverurétt manns og í ofanálag stunda eldflauga- og hryðjuverkaárásir af öllum gefnum tækifærum gegn manni?

Sameinaðir í hatri

Ísraelsmenn vilja ekki að Fatah eða PLO (sem er við völd á Vesturbakkanum) fari í samkrull með öfga- og hryðjuverkasamtökum Hamas (sem eru allsráðandi á Gazaströndinni). Stöðugur ágreiningur hefur staðið á milli þessara tveggja fylkinga en núna eru þeir að reyna að koma sér saman um stefnu, þ.e. Fatah þarf að gefa allt sitt eftir til að þóknast Hamas. Hamas eru engin börn að leika sér við, stórhættulegir glæpamenn sem hafa það efst á stefnuskrá sinni að gereyða Ísrael.

Össur ýtir undir stríðsfákana

Skyldi Össur styðja þá stefnuyfirlýsingu líka? Megum við eiga von á fulltrúum Hamas í heimsókn til »vinaþjóðarinnar« Íslands á næstunni? Hvernig getur Össur útskýrt annars vegar veru NATO (og okkar Íslendinga þar með) í Afganistan þar sem þeir eru að berjast við hryðjuverkasamtökin Al Qaida og svo þessa vinsemd og skilning sem hann sýnir skoðana- og trúarbræðrum þeirra í Hamas samtökunum? Þessi deila palestínuaraba og gyðinga fyrir botni Miðjarðarhafs snýst ekki um frið heldur algjöran sigur múslíma og gjöreyðingu Ísraelsríkis.

Land fyrir frið! - Hvaða frið?

Palestínuarabar hafa fengið þónokkur tækifæri til að semja um frið við Ísraelsmenn en hafa klúðrað málum. Ísraelsmenn gáfu þeim eftir Gazaströndina og fjarlægðu sjö þúsund gyðinga, sem þar bjuggu. Ísraelsmenn vonuðust eftir einhverskonar friði við þá eftirgjöf en ástandið hefur aldrei verið verra en einmitt núna 6 árum seinna. Ef Ísraelar myndu gefa eftir og færa landamæri sín aftur til ársins 1967, sem þýðir að mestu Vesturbakkinn eins og hann leggur sig, myndi það gefa Hamas byr undir báða vængi og óverjandi landamæri. Þrátt fyrir að Fatah sé við stjórn á Vesturbakkanum sem stendur, vita Ísraelsmenn að það getur breyst eins og hendi sé veifað og þá er fjandinn laus.

Barnaskapur Össurar - Arabar hafa hann að fífli

Ísraelsmönnum er stillt upp við vegg og þetta er barátta uppá líf og dauða á hverjum degi. Össur er barnalegur í lýsingum sínum á öryggisgæslunni og það sem hann hefur látið eftir sér hafa í blaðaviðtölum er lýsandi dæmi um skilningsleysi hans á stöðu mála hérna. Hann talar um frekju og yfirgang Ísraelsmanna. Hann segir ísraelsku hermennina hafa hent grjóti í veg fyrir bílalest sína þar sem hann og félagar vildu fara inná annars bannsvæði. Mér dettur helst í hug að þetta »grjót« hafi verið vegartálmar sem er jú á öllum eftirlitsstöðum á landamærum hér í Ísrael. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér hermennina í fullum herklæðum framkvæma þennan gjörning í óþökk Össurar og fylgdarliðs í 34 stiga hita þar sem þeir þurfa að halda einbeitingunni því þeir mega eiga von á hryðjuverkaárás á hverri sekúndu. Þeir eru ekki öfundsverðir af því að standa í steikjandi sólinni við landamæravörslu á Vesturbakkanum vitandi það að næsti bíll sem fer í gegn gæti mögulega hafið stórskotaárás á þá nú eða að næsta fótgangandi manneskja sé með sprengjubelti vafið um sig miðja, tilbúin til að deyja í nafni málstaðarins. Mér er nær að halda að Össur í loftkældri lúxusbifreið hafi verið að brúka munn og verið með frekju við landamæraverðina. En burtséð frá því þá er það staðreynd að þrátt fyrir öfluga gæslu ná Palestínuarabar að fremja hryðjuverk og svo náttúrulega að skjóta stórhættulegum eldflaugum hingað yfir.

Morðingjar í skjóli nætur

Á Vesturbakkanum er blönduð byggð Palestínuaraba og gyðinga. Þúsundir palestínuaraba sækja vinnu til Ísraels á hverjum degi. Ég hef aðeins farið þarna um og séð með eigin augum hvernig byggðir gyðinga eru víggirtar af ótta við hryðjuverkaárásir. Nú síðast 5. mars síðastliðinn voru 5 manns af 8 manna gyðingafjölskyldu myrt í svefni í Itamar, á Vesturbakkanum. Morðingjarnir, 17 ára og 22 ára Palestínuarabar, brutust inn á heimili þeirra í skjóli nætur. Þetta er m.a. ástæðan fyrir mikilli öryggisgæslu á Vesturbakkanum.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2011


Kæru vinir, Ólöf sýndi mikið hugrekki með því að skrifa þessa grein.
Biðjum fyrir henni og fjölskyldu hennar.
Shalom, Sigrún

 

 Aftur til baka í pistla...

  

 

 

 

 

torah@internet.is

 

     
 

 

Sigrún Einarsdóttir & Ragnar B. Björnsson © 2008
www.torah.is / torah@internet.is
Vefhönnun: Einir Björn Ragnarsson