Ritningarlestur á Hanukkah hátíðinni

 

Eftir: Glenn McWilliams

 

Níu arma ljósastikan er hið klassíska tákn Hanukkah og byggir á rabbínískri goðsögn um mikið kraftaverk sem átti sér stað þegar altarið var helgað á tíma uppreisnar Makkabeanna. Goðsögnin segir frá því hvernig musterið var vanhelgað af Antíokkíus Epífanes og herjum hans. Þegar Makkabear höfðu leyst Jerúsalem úr viðjum hans vildu þeir endurhelga altarið og musterið. Samkvæmt Torah tekur það átta daga. Vandamálið var það að það var bara til næg olía í ljósastikuna fyrir einn dag. Prestarnir fylltu ljósastikuna (sem hefur aðeins sjö lampa, en ekki níu) og vonuðu það besta.

Samkvæmt goðsögninni dugði olían til að halda ljósastikunni logandi alla átta dagana. Þetta er dásamleg saga en því miður á hún sér engan grunn í ritningunum eða Makkabeabókunum. Sannleikurinn er sá að sagan af kraftaverki olíunnar var sögð til þess að beina athyglinni frá Makkabeunum eða Hasmóneunum sem urðu spilltir stjórnendur í Ísrael. Það voru Hasmonearnir sem að lokum buðu Rómverjum að koma með hersveitir sínar til Ísrael til að útkljá deilur.

Rómverjarnir komu, sáu og sigruðu. Það er kaldhæðnislegt að fjölskyldan sem sá til þess að musterið og altarið væri helgað, yrði síðar uppspretta eyðileggingar þess.

Fyrir marga Gyðinga og messíanskt trúað fólk hafa Hanukkah ljósastikan og „dreidel“ spilið orðið eins konar hebresk útgáfa af jólatrénu. Eins hefur þessi vígsluhátíð orðið eins og hebresk útgáfa af jólunum. Það er sorglegt að svo yndisleg hátíð hafi verið yfirtekin af efnishyggju hins heiðna heims. Það er kaldhæðnislegt að hátíðin sem fagnar sigri Ísraelsmanna þegar átti að þvinga þá til að aðlaga sig að heiðnum siðum, skuli á marga vegu vera orðin að hátíð heimslegra siða.

Það eru nokkur þema í Hanukkah sögunni sem gott er að skoða. Fyrst getum við hugsað um raunveruleika þess hve auðvelt það er, jafnvel fyrir hina áköfustu trúmenn, að tapa áttum, eins og sást á Hasmóneunum. Við getum einnig skoðað hvernig okkar eigið líf, val og hegðun hefur áhrif á hið lifandi musteri.

Á meðan Hanukkah á að vera gleðileg fagnaðarhátíð, kunnum við þó að upplifa einhverja hryggð yfir því að vita að við getum ekki sannarlega fullnægt Torah eða þekkt fulla opinberun YHWH án musterisins. Á jákvæðari nótum, getum við fagnað í fyrirheiti þess að YHWH mun sannarlega endurreisa altarið og réttan stað okkar í ríki hans.

Í hjarta Hanukkah sögunnar er vígsla, eða helgun, musterisins. Hanukkah snýst um aðskilnað, helgun, vígslu og baráttu gegn samlögun.

Eftirfarandi eru einfaldar tillögur að lestri á dögum þessarar hátíðar.

Fyrsti dagur:

Lestur úr Daníelsbók, Makkabeabókum og 2. Mósebók. Sjónum er beint að trúfesti YHWH í því að opinbera og uppfylla spádóm sinn og raunveruleika eyðileggingar musterisins og merkingu þess.

Fyrsti dagurinn fókusar á spádóminn og atburðarrásina sem leiddi til Hanukkah, ásamt lögmálinu varðandi vígslu altarisins, eins og það er í Torah. Daníel lifði og spáði frá Babýlon á 6. öld f.Kr. Atburðirnir sem sagt er frá í Makkabeabókunum áttu sér stað á 2. öld f.Kr.

Við ættum að taka eftir því að spádómur getur ræst í mörgum stigum, í fortíð, nútíð og framtíð. Því ætti okkur ekki að undra spádóm Yeshua um framtíðaruppfyllingu orða Daníels (Matt. 24.15+).

Í hjarta Hanukkah hátíðarinnar eða vígsluhátíðarinnar er baráttan gegn freistingu þess að samlagast heiminum í kringum okkur friðarins vegna. Makkabearnir stóðu gegn þessum þrýstingi af miklum mætti.

Daníel 8.1-25
Á þriðja ríkisári Belsasars konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá, sem áður hafði birst mér. Og ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið. Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið.Hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp. Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti. En er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna. Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði. Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans. Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum. Og út frá einu þeirra spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna. Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir. Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn. Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt. Þá heyrði ég einn heilagan tala, og annar heilagur sagði við hinn, sem talaði: Hvað á hún sér langan aldur þessi sýn um hina daglegu fórn og um hinn hræðilega glæp, frá því er hann framselur helgidóminn og herinn, svo að hann verði niður troðinn? Og hann sagði við hann: Tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgnar, og þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag. Þegar ég, Daníel, sá þessa sýn og leitaðist við að skilja hana, þá stóð allt í einu einhver frammi fyrir mér, líkur manni ásýndar. Og ég heyrði mannsraust milli Úlaí-bakka, sem kallaði og sagði: Gabríel, útskýr þú sýnina fyrir þessum manni. Og hann gekk til mín, þar sem ég stóð, en er hann kom, varð ég hræddur og féll fram á ásjónu mína. En hann sagði við mig: Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna. Og meðan hann talaði við mig, leið ég í ómegin til jarðar fram á ásjónu mína, en hann snart mig og reisti mig aftur á fætur, þar er ég hafði staðið. Og hann sagði: Sjá, ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna. Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var. En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís.Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur.Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu. Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar.

1. Makkabeabók 1.1-15
Alexander Filippusson frá Makedóníu vann sigur á Daríusi, konungi Persa og Meda, eftir að hann fór frá landi Kitta. Settist hann að völdum í stað Daríusar en hafði áður ríkt yfir Grikklandi. Hann átti í sífelldum styrjöldum, tók hvert virkið af öðru og lagði konunga að velli víða um lönd. Hann sótti fram allt að ystu endimörkum jarðar og rændi fjölmargar þjóðir. Enginn á jörðu mátti sín neins fyrir honum og gerðist hann hrokafullur og drambsamur í hjarta. Hann safnaði óvígum her og drottnaði yfir löndum, þjóðum og furstum sem urðu skattskyldir honum. Þá varð hann sjúkur og fann að dauðinn nálgaðist. Kallaði hann til sín tignustu þjóna sína, sem alist höfðu upp með honum frá unga aldri, og skipti ríki sínu milli þeirra í lifanda lífi. Er Alexander dó hafði hann ríkt í tólf ár. Þjónar hans tóku við völdum hver á sínum stað. Að Alexander látnum létu þeir allir krýna sig. Hið sama gerðu svo niðjar þeirra sem tóku við af þeim. Var svo um langt árabil og komu þeir miklu illu til leiðar á jörðinni. Afsprengi þeirra var hrakmennið Antíokkus Epífanes, sonur Antíokkusar konungs. Hafði hann verið gísl í Róm og kom til ríkis á eitt hundrað þrítugasta og sjöunda ári gríska konungdómsins. Um þessar mundir tóku nokkrir Ísraelsmenn að snúa baki við lögmálinu og afvegaleiddu marga. Þeir sögðu: „Við skulum gera sáttmála við heiðingjana sem búa umhverfis okkur því að margt hefur gengið okkur öndvert síðan við sögðum skilið við þá.“ Þetta tal féll ýmsum vel í geð og urðu sumir landa þeirra svo ákafir að þeir héldu til konungs sem gaf þeim leyfi til að taka upp heiðna lifnaðarhætti. Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. Þeir lögðu lag sitt við heiðingja og létu kaupa sig til illra verka.

1. Makkabeabók 1.16-24
Þegar Antíokkus var orðinn fastur í sessi afréð hann að ná völdum í Egyptalandi og drottna yfir báðum ríkjunum. Hann hélt gegn Egyptum með mikinn her, stríðsvagna og fíla og stóran flota. Hann lagði til orrustu við Ptólemeus, konung Egypta, sem bar lægri hlut fyrir honum, var hrakinn á flótta og féllu margir sárir. Lið Antíokkusar tók víggirtar borgir Egypta og mikið herfang í landi þeirra. Þegar Antíokkus hafði unnið sigur á Egyptum hélt hann árið eitt hundrað fjörutíu og þrjú með mikinn herafla til Ísraels og Jerúsalem. Í ofurdrambi sínu gekk hann inn í helgidóminn og tók gullaltarið og ljósastikuna og allt sem henni heyrði, skoðunarbrauðaborðið, dreypifórnarbollana, skálarnar, gullreykelsiskerin og fortjaldið. Krönsunum og allri gullskreytingunni á forhlið musterisins lét hann fletta af. Hann tók silfur og gull og verðmæt áhöld og allt sem hann fann af fjársjóðunum sem í musterinu voru fólgnir. Þetta allt tók hann og hafði með sér heim í land sitt. Hann olli blóðbaði og var afar digurbarkalegur í tali.

1. Makkabeabók 1.41-50
Konungur sendi bréf um allt ríki sitt um að allir þegnar hans skyldu verða ein þjóð. Bauð hann sérhverjum að snúa baki við siðum sínum. Allar þjóðir lutu boði konungs og ýmsum í Ísrael geðjaðist guðsdýrkun hans vel. Færðu þeir hjáguðum fórnir og vanhelguðu hvíldardaginn. Konungur sendi boðbera til Jerúsalem og borga Júdeu með bréf um að framandi siðum skyldi fylgt. Brennifórnir, sláturfórnir og dreypifórnir skyldu aflagðar í helgidóminum og afhelga átti hvíldardaga og hátíðir, saurga musterið og svívirða prestana. Reisa skyldi ölturu, helgistaði og hof fyrir goðin og fórna svínum og öðrum óhreinum dýrum. Drengi mátti ekki framar umskera en sál þeirra saurga með alls kyns flekkun og vanhelgun svo að lögmálið gleymdist og öllum fyrirmælum þess yrði umsnúið.

1. Makkabeabók 1.54-62
Fimmtánda dag kíslevmánaðar árið eitt hundrað fjörutíu og fimm lét konungurinn reisa viðurstyggð eyðingarinnar á fórnaraltarinu og reisa ölturu víðs vegar í borgum Júdeu. Fyrir dyrum húsa og á götum úti var reykelsi brennt. Þær lögmálsbækur sem fundust voru rifnar og brenndar. Fyndist sáttmálsbók í fórum einhvers var hann dauðasekur að boði konungs og einnig sá sem hafði mætur á lögmálinu. Mánuðum saman sættu Ísraelsmenn, sem fundust í borgunum, grimmilegu aðkasti. Tuttugasta og fimmta dag mánaðarins færðu þeir fórnir á altarinu sem reist var ofan á fórnaraltarinu. Að fyrirmælum konungs voru konur, sem létu umskera syni sína, teknar af lífi. Voru ungbörnin hengd um háls þeirra. Einnig voru heimamenn þeirra og þeir sem önnuðust umskurnina deyddir. En margir í Ísrael voru staðfastir og staðráðnir í að eta ekkert óhreint.

1. Makkabeabók 2.15-26
Þá komu sendimenn konungs til Módein. Áttu þeir að þvinga menn til fráhvarfs og knýja þá til að færa fórnir. Margir Ísraelsmenn komu til fundar við þá. Mattatías og synir hans héldu hópinn. Konungsmenn beindu orðum til Mattatíasar og sögðu: „Þú ert virtur og mikils metinn leiðtogi hér í borg og nýtur stuðnings sona og bræðra. Stíg þú fyrstur fram til að hlýðnast fyrirmælum konungs svo sem allar þjóðir hafa gert, einnig Júdeumenn og þeir sem eftir urðu í Jerúsalem. Þá munuð þið synir þínir verða vinir konungs og sæmdir gulli og silfri og mörgum gjöfum.“ En Mattatías svaraði og brýndi raustina: „Þótt allar þjóðir í ríki konungs hlýði honum og snúi baki við trúarbrögðum feðra sinna og kjósi allar að fara að boðum hans mun ég og synir mínir og bræður samt fylgja sáttmála feðra okkar. Guð forði okkur frá að gerast fráhverfir lögmálinu og ákvæðum þess. Við munum ekki hlýða boðum konungs og ekki víkja til hægri eða vinstri frá guðsdýrkun okkar.“
Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Gyðingur nokkur gekk fram í augsýn allra til að færa fórn á altarinu í Módein samkvæmt fyrirmælum konungs. Er Mattatías sá það fylltist hann vandlætingu og tók að skjálfa innra með sér. Brennandi af réttlátri reiði þaut hann til og hjó manninn til bana við altarið. Einnig deyddi hann konungsmanninn, sem átti að þvinga aðra til að fórna, og reif altarið niður. Þannig varði hann lögmálið af vandlætingu eins og Pínehas hafði breytt við Simrí Salúson.

1. Makkabeabók 3.45-60
Jerúsalem var sem óbyggð auðn,
ekkert barna hennar fór þar um.
Helgidómurinn var fótum troðinn,
útlendingar héldu virkinu
svo að það varð heiðingjum hæli.
Gleði var horfin Jakobi,
flauta og harpa þögnuð.
Júdas og menn hans söfnuðust saman og héldu til Mispa, gegnt Jerúsalem, en Mispa hafði fyrr á tímum verið bænastaður Ísraelsmanna. Daginn þann föstuðu þeir, klæddust hærusekk, jusu ösku yfir höfuð sér og rifu klæði sín. Síðan luku þeir lögmálsbókinni upp til að finna það sem heiðingjarnir leita eftir hjá skurðgoðamyndum sínum. Þeir báru einnig skrúða prestanna fram, frumgróðann og tíundirnar og sóttu nasírea sem fullnað höfðu helgunardaga sína. Síðan hrópuðu þeir hárri röddu til himins: „Hvað eigum við að gera við þetta og hvert á að fara með þetta? Helgidómur þinn er fótum troðinn og svívirtur orðinn og prestar þínir hryggir og niðurlægðir. Og nú hafa heiðingjarnir sameinast gegn okkur til að uppræta okkur. Þú veist hvað þeir hafa í hyggju með okkur. Hvernig eigum við að standa í gegn þeim ef þú hjálpar okkur ekki?“ Síðan þeyttu þeir lúðra og hrópuðu hástöfum.
Eftir þetta skipaði Júdas fyrirliða fyrir lið sitt. Stýrðu sumir þúsund, aðrir fimm hundruð, hundrað, fimmtíu eða tíu manna deildum. En eins og lögmálið kveður á um sendi hann þá heim til sín sem voru að reisa sér hús, höfðu fastnað sér konu eða plantað víngarð eða kenndu hræðslu.
Þá yfirgaf herinn búðir sínar og kom sér fyrir að nýju fyrir sunnan Emmaus. Þar sagði Júdas: „Brynjið ykkur og hleypið kappi í kinn. Búist til að berjast í bítið á morgun við þessa heiðingja sem sameinast hafa móti okkur til að afmá okkur og helgidóm okkar. Betra mun okkur að falla í orrustu en að horfa upp á ógæfu þjóðar okkar og helgidómsins. En hver sem vilji himinsins er, það lætur hann verða.“

1. Makkabeabók 4.8-11
Þá sagði Júdas við menn sína: „Óttist ekki fjölda þeirra og hræðist ekki árás þeirra. Minnist þess hvernig feður okkar björguðust í Rauðahafinu þegar her faraós elti þá. Nú skulum við hrópa til himins að hann verði okkur náðugur og minnist sáttmálans við feður okkar. Mun hann þá eyða þessum her fyrir augum okkar í dag. Af því munu allir heiðingjar komast að raun um að sá er til sem frelsar og bjargar Ísrael.“

1. Makkabeabók 4.37-60
Allur herinn safnaðist saman og gekk upp á Síonfjall. Þar fundu þeir helgidóminn yfirgefinn og fórnaraltarið saurgað og hliðin brennd. Kjarr var vaxið upp í forgörðunum svo að þeir voru líkastir skóglendi eða fjalllendi og hliðarherbergi prestanna höfðu verið rifin. Menn Júdasar rifu klæði sín, kveinuðu harmi lostnir, jusu sig ösku og féllu til jarðar fram á ásjónur sínar. Síðan þeyttu þeir merkilúðrana og hrópuðu til himins.
Þá bauð Júdas nokkrum manna sinna að herja á liðið í virkinu meðan hann hreinsaði helgidóminn. Hann valdi presta sem eigi höfðu látið flekkast og unnu lögmálinu. Hreinsuðu þeir helgidóminn og fluttu saurguðu steinana á óhreinan stað. Þeir ráðguðust um hvað gert skyldi við brennifórnaraltarið sem svívirt var. Hugkvæmdist þeim það heillaráð að rífa það svo að það minnti ekki framar á þá smán að heiðingjar höfðu saurgað það.
Þeir rifu því fórnaraltarið niður og komu steinunum fyrir á hentugum stað á musterisfjallinu þar til spámaður kæmi sem gæti svarað því hvað gert skyldi við þá. Tóku þeir síðan óhöggna steina eins og lögmálið segir til um og hlóðu nýtt altari sem var eins og hið fyrra. Helgidóminn endurbættu þeir að utan sem innan og vígðu forgarðana. Þeir gerðu ný helgiáhöld og báru ljósastikuna, reykelsisaltarið og borðið inn í musterið. Þeir brenndu síðan reykelsi á reykelsisaltarinu og tendruðu lampana á ljósastikunni svo að birti í musterinu. Þeir lögðu brauð á borðið og hengdu fortjaldið upp.
Þá var öllu lokið sem gera þurfti.
Þeir fóru árla á fætur. Var það tuttugasta og fimmta dag níunda mánaðar, þ.e. kíslevmánaðar, árið eitt hundrað fjörutíu og átta.

Báru prestarnir fram fórn samkvæmt lögmálinu á nýja brennifórnaraltarið sem þeir höfðu reist. Á sama tíma árs og á sama degi og heiðingjarnir svívirtu helgidóminn var hann endurvígður með söng og leik á hörpu, gígjur og bumbur. Og fólkið allt féll fram á ásjónu sína og tilbað og lofaði himininn sem hafði veitt því sigursæld.
Vígslu fórnaraltarisins héldu menn hátíðlega í átta daga, báru brennifórnir fram fagnandi huga og færðu heillafórn og þakkarfórn. Þeir prýddu framhlið musterisins með gullsveigum og skjöldum, endurnýjuðu hliðin og hliðarherbergi prestanna og settu hurðir fyrir. Gífurlegur fögnuður ríkti meðal fólksins yfir að smánin, sem heiðingjarnir ollu, var afmáð.
Ákvað Júdas og bræður hans og allur söfnuður Ísraels að árlega skyldi endurvígslu fórnaraltarisins minnst með hátíð og fögnuði og gleði í átta daga frá tuttugasta og fimmta degi kíslevmánaðar. Um þessar mundir reistu þeir háa múra með sterkum turnum umhverfis Síonfjall til að koma í veg fyrir að heiðingjarnir kæmu á ný og saurguðu svæðið eins og áður.

2. Mósebók 29.1-49
-1- Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa, -2- ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli. -3- Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum. -4- Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni. -5- Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum. -6- Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn. -7- Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann. -8- Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla, -9- gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans. -10- Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum. -11- En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir YHWH, fyrir dyrum samfundatjaldsins. -12- Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið. -13- Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu. -14- En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn. -15- Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. -16- Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið. -17- En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innyfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið. -18- Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn YHWH til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn YHWH til handa. -19- Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. -20- En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið. -21- Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum. -22- Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið því að þetta er vígsluhrútur, -23- einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir YHWH. -24- Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir YHWH. -25- Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir YHWH. Það er eldfórn YHWH til handa. -26- Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir YHWH i. Hún skal koma í þinn hlut. -27- Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans. -28- Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til YHWH. -29- Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim. -30- Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum. -31- Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað, -32- og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. -33- Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað. -34- En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað. -35- Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra, -36- og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það. -37- Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður. -38- Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega. -39- Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur. -40- Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni. -41- Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir YHWH. -42- Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn YHWH. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig, -43- og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð. -44- Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti. -45- Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Elóhím. -46- Og þeir skulu viðurkenna, að ég er YHWH, Elóhím þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra. Ég er YHWH, Elóhím þeirra.

 

Annar dagur:

Horfum til þess hvernig Yeshua hélt Hanukkah, hreinsaði musterið og opinberaði að hann er hið lifandi musteri lifandi Elóhíms.

Jóh. 10.22-25
Nú var vígsluhátíðin [Hanukkah] í Jerúsalem og kominn vetur. Yeshua gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Messías, þá seg oss það berum orðum. Yeshua svaraði þeim: Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig.

Matt. 21.12-17
Þá gekk Yeshua í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli. Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá. Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: Hósanna syni Davíðs! Þeir urðu gramir við og sögðu við hann: Heyrir þú, hvað þau segja? Yeshua svaraði þeim: Já, hafið þér aldrei lesið þetta: Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof. Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.

Mark. 11.15-19
Þeir komu til Jerúsalem, og hann gekk í helgidóminn og tók að reka út þá, sem voru að selja þar og kaupa, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn. Og hann kenndi þeim og sagði: Er ekki ritað: Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir? En þér hafið gjört það að ræningjabæli. Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans. Þegar leið að kvöldi, fóru þeir úr borginni.

Lúk. 19.45-48
Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli. Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.

Jóh. 2.13-25
Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Yeshua hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar. Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð. Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp. Gyðingar sögðu þá við hann: Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta? Yeshua svaraði þeim: Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum. Þá sögðu Gyðingar: Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum! En hann var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Yeshua hafði talað. Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði. En Yeshua gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.

 

Þriðji dagur:

 Horfum til raunveruleika þess að sem limir á líkama Messíasar eigum við líka að verða hið lifandi musteri YHWH. Hvað þýðir það fyrir okkur að vera musterið? Hvaða áhrif hefur það á val okkar, hegðun og mataræði? Hver er tilgangur hins lifandi musteris?

2. Mósebók 25.8
Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.

Róm. 12.5
Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Messíasi, en hver um sig annars limir.

1. Kor. 12.27
Þér eruð líkami Messíasar og limir hans hver um sig.

Efesusbr. 5.30
Því vér erum limir á líkama hans.

1. Kor. 6.19
Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Elóhím? Og ekki eruð þér yðar eigin.

1. Kor. 3.16-17
Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Elóhíms og að andi Elóhíms býr í yður? Ef nokkur eyðir musteri Elóhíms, mun Elóhím eyða honum, því að musteri Elóhíms er heilagt, og þér eruð það musteri.

2. Kor 6.16
Hvernig má sætta musteri Elóhíms við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Elóhíms, eins og Elóhím hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Elóhím þeirra.

 

Fjórði dagur:

Horfum til köllunar barna Ísraels til að vera heilög prestastétt með Messías sem höfuð sitt eða Kohen Gadol (æðsta prest).

2. Mós 19.5-6
Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður. Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum.

1. Pét 2.9
En þér eruð útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans, sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.

Heb. 2.16-17
Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams. Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur [Kohen Gadol] í þjónustu fyrir Elóhím, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.

Heb. 4.14-16
Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Yeshua son Elóhíms, skulum vér halda fast við játninguna. Ekki höfum vér þann æðsta prest [Kohen Gadol], er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Heb 5.5-10
Svo var það og um Messías. Ekki tók hann sér sjálfur þá vegsemd að gjörast æðsti prestur [Kohen Gadol].  Hann fékk hana af Elóhím, er hann sagði við hann: Þú ert sonur minn í dag hef ég fætt þig. Og á öðrum stað: Þú ert prestur [kohen] að eilífu að hætti Melkísedeks. Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis, af Elóhím nefndur æðsti prestur [Kohen Gadol] að hætti Melkísedeks.

 

Fimmti dagur:

Horfum til þeirrar staðreyndar að kohenim (prestarnir) áttu að færa fórnir. Sem börn Ísraels og meðlimir líkama Messíasar erum við hluti af heilagri prestastétt og kölluð til að færa fórnir. Því eigum við, eins og Yeshua, Messías okkar, að bjóða fram líf okkar sem lifandi fórn.

Heb. 7.27
Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir [Kohen Gadolim], fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.

Heb. 8.3
Sérhver æðsti prestur [Kohen Gadol] er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera.

Róm. 12.1-2
Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Elóhíms bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Elóhím þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Elóhíms, hið góða, fagra og fullkomna.

Heb. 13.15
Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Elóhím, ávöxt vara, er játa nafn hans.

Matt. 10.37-38
Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.

Matt. 16.24-25
Þá mælti Yeshua við lærisveina sína: Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.

Lúk. 9.23-24
Og hann sagði við alla: Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. -Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.

Lúk. 14.27
Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.

1. Pét. 2.5
Og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Elóhím velþóknanlegar fyrir Messías Yeshua.

 

Sjötti dagur:

Horfum til þess hvað það þýðir að vera helgaður, frábrugðinn og heilagur.

3. Mós 10.10-11
Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint. Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er YHWH hefir gefið þeim fyrir Móse.

Esekíel 44.23
Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu.

3. Mós. 11.44-45
Því að ég er YHWH, Elóhím yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni. Því að ég er YHWH, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Elóhím. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur.

3. Mós. 20.7
Helgist og verið heilagir, því að ég er YHWH, Elóhím yðar.

1. Pét. 1.15-16
Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: Verið heilagir, því ég er heilagur.

2. Kor 6.16-18
Hvernig má sætta musteri Elóhíms við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Elóhíms, eins og Elóhím hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Elóhím þeirra, og þeir munu vera lýður minn. Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur,segir Drottinn alvaldur.

 

Sjöundi dagur:

Horfum til þeirrar staðreyndar að skaparinn aðskildi ljósið frá myrkrinu en samt átti ljósið að lýsa upp myrkrið. Hvað þýðir það að vera skýrt ljós í myrkrinu? Það var Torah sem gerði börn Ísraels virkilega skýrt ljós til þjóðanna.

1. Mós. 1.3-4
Elóhím sagði: Verði ljós! Og það varð ljós. Elóhím sá, að ljósið var gott, og Elóhím greindi ljósið frá myrkrinu.

2. Mós 10.22-23
Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga. Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.

Orðsk. 4.18
Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi. 

Orðsk. 6.23
Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins,

Sálm. 119.105
Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. 

Sálm. 119.130
Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

Sálm. 147.19-20
Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Jes. 2.5
Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi YHWH.

Jes. 5.20
Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.

Jes. 9.2
Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.

Jes. 42.6
Ég, YHWH, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar.

Jes. 60.1
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð YHWH rennur upp yfir þér!

Jóh. 1.5
Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Jóh. 8.12
Nú talaði Yeshua aftur til þeirra og sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.

Jóh. 9.5
Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Matt. 5.14
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 

Efesus. 5.8
Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í YHWH. Hegðið yður eins og börn ljóssins.

 

Áttundi dagur:

Horfum til kærleika YHWH í öllu sem við gerum. Horum líka til hlýðni við Torah sem grunntjáningar kærleika okkar og tilbeiðslu á YHWH.

5. Mós. 10.12
Og nú, Ísrael, hvers krefst YHWH Elóhím þinn af þér nema þess, að þú óttist YHWH Elóhím þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir YHWH Elóhím þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni...

5. Mós. 6.4-5
Heyr Ísrael! YHWH er vor Elóhím; hann einn er YHWH! Þú skalt elska YHWH Elóhím þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.

5. Mós. 11.1
Fyrir því skalt þú elska YHWH Elóhím þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga.

5. Mós. 30.6
YHWH Elóhím þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir YHWH Elóhím þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa.

5. Mós. 30.16
Ef þú hlýðir skipunum YHWH Elóhíms þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska YHWH Elóhím þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og YHWH Elóhím þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.

5. Mós. 30.20
Með því að elska YHWH Elóhím þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem YHWH sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.

Jóh. 14.15
Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.

Jóh. 14.21
Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.

Jóh. 14.23
Yeshua svaraði: Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.

Þessi lestur er aðeins ætlaður sem uppástungur fyrir þá sem eru nýir í hátíðarhöldum Hanukkah. Hanukkah hátíðin ætti að vera mjög andleg en samt ákaflega gleðileg tíð. Hanukkah er ekki ein af löghátíðum YHWH og því getum við mótað okkar eigin táknrænar hefðir í kringum hátíðina. Við þurfum þó að gæta þess að það stangist hvergi á við Torah eða, eins og þegar hefur verið gert, stangist á við tilgang hátíðarinnar, sem er sá að helga (vígja) musterið.

 

Birt með leyfi höfundar.
Íslensk þýðing: Sigrún Einarsdóttir
Vefsíða höfundar: www.tktorahkeepers.com

 

 

Copyright - www.torah.is

torah@internet.is